Í kvöld dró ég fram Jamie Oliver ársbókina eina ferðina enn. Ég held að bókin fari að detta í sundur því hún fær engan frið fyrir mér. Hún er mér traustur félagi í eldhúsinu og það er gott að geta dregið hana fram til að fá hugmyndir.
Í kvöld varð pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi fyrir valinu. Okkur þótti rétturinn feiknagóður og krakkarnir gáfu honum bestu einkunn. Ekki skemmdi fyrir að rétturinn var bæði einfaldur og tók stuttan tíma að útbúa.
Pönnusteiktur þorskur
- 900 gr þorskur
- 5 kúfaðar matskeiðar af hveiti
- 2 egg
- 150 gr brauðrasp
- 1-2 pressuð hvítlauksrif
- nokkrir stönglar af fersku rósmarín
- Sítróna, skorin í báta
Sætir kartöflubátar
- 2 stórar eða 4-5 litlar sætar kartöflur
- 1-1,5 tsk reykt paprika
- salt
- pipar
- ólívuolía
Basilikumajónes
- 4 basilikustönglar
- maldonsalt
- 2 kúfaðar matskeiðar majónes (ég nota Hellmans Light)
- safi af 1/2 sítrónu
Hitið ofninn í 200°. Skrúbbið eða afhýðið sætu kartöflurnar og skerið þær á lengdina í 8 báta. Leggið bátana í eldfast mót og veltið þeim upp úr ólivuolíu og kryddunum. Bakið í ofninum í 35-40 mínútur.
Takið fram 3 skálar. Setjið hveiti í fyrstu skálina og kryddið með salti og pipar (ég notaði Jamie Oliver saltið með sítrónu og timjan, mjög gott). Hrærið eggin og setjið í aðra skálina. Í þriðju skálina setjið þið brauðraspinn. Veltið nú þorskbitunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan hrærðu eggjunum og að lokum brauðraspinum.
Hitið ólívuolíuna við miðlungshita á pönnu og bætið hvítlauknum og rósmaríngreinunum í olíuna. Þetta er gert til að bragðbæta olíuna. Þegar hvítlaukurinn byrjar að krauma er þorsknum bætt á pönnuna. Steikið þorskinn í nokkrar mínútur á hvorri hlið, þar til hann fær fallegan lit.
Fjarlægið stöngulin frá basilikulaufunum og leggið laufin í mortel ásamt maldonsalti. Notið mortelið til að mauka laufin. Bætið majónesi og sítrónusafa út í og blandið vel.
Mmmm en girnilegt!
Í síðustu viku eldaði ég eftir uppskriftum af síðunni 5 daga í röð og bakaði tvær kökur og allt var þetta jafngott:)
Bestu kveðjur frá Uppsala!
En æðislega gaman að heyra – takk fyrir að deila með mér ♥
Knús til ykkar, Svava.
er líka reykt paprika á fiskinum? Eitthvað svo rauðleitt krydd á honum skv myndinni. Annars takk fyrir frábæra og fallega síðu 🙂