Eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust tekið eftir þá hef ég eytt síðustu dögum með mömmu og Malínu hjá systur minni í Kaupmannahöfn. Við flugum út á fimmtudagsmorgun og komum aftur heim í dag. Við áttum yndislega daga saman, gengum um bæinn, sátum á kaffihúsum, litum í búðir, dáðumst af fallegum jólaskreytingum og borðuðum ris a la mande. Þess á milli nutum við þess að stjana við systurdóttur mína sem vefur okkur um fingur sér án þess að hafa nokkuð fyrir því. Á kvöldin vöktum við frameftir yfir skálum fullum af sætindum og nutum þess að vera allar saman komnar. Það gerist allt of sjaldan þar sem systir mín hefur búið úti í yfir 10 ár.
Þrátt fyrir ævintýri síðustu daga er matseðillinn hér á sínum stað. Á sunnudegi eins og hefð er fyrir en kannski örlítið seinn á ferðinni. Ég vona að það komi ekki að sök.
Mánudagur: Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi að hætti Jamie Oliver þykir mér góður réttur, eins og flest sem frá honum kemur.
Þriðjudagur: Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki er góður hversdagsmatur sem krakkarnir eru hrifnir af.
Miðvikudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa fer vel í kuldanum og myrkrinu.
Fimmtudagur: Brauð með ítalskri fyllingu fær pláss á matseðlinum því það er svo gott.
Föstudagur: Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi þykir mér æðislega góður réttur. Það tekur stutta stund að matreiða réttinn sem gerir hann að frábærum föstudagsmat.
Með helgarkaffinu: Þessi mjúka kanilsnúðakaka vekur alltaf lukku og fer því vel með helgarkaffinu.
Kakan hlýtur að vera góð, fyrst hún kemur brosandi úr ofninum:) Hlakka til að prófa. Takk fyrir skemmtilega síðu.
Ég verð bara að þakka þér fyrir þessa frábæru síðu, mér finnst mjög gaman að elda en er ekkert rosalega hugmyndarík. Síðan hjá þér hefur algjörlega bjargað mér, það er nánast eitthvað í matinn frá þessari síðu á hverju kvöldi. Svo enn og aftur takk kærlega fyrir mig 🙂
Ó, hvað mér þótti skemmtilegt að lesa þessa kveðju. Takk ♥