Þegar ég kom fram í morgun blasti við mér fannhvít jörð og jólasnjór féll frá himninum. Það var engin á ferli og friðsældin var dásamleg. Þvílík fegurð. Það brá þó snögglega fyrir gleðina þegar það rifjaðist upp fyrir mér að bíllinn minn var enn á sumardekkjum. Eða kannski ekki sumardekkjum heldur heilsársdekkjum sem mér þykja ekki gera neitt gagn í hálku. Það var því ekkert spes að keyra í vinnuna í morgun og mikið var ég fegin þegar ég var komin á leiðarenda. Nú er næsta mál á dagskrá að kaupa ný dekk sem virka betur í vetrarveðrinu.
Í haust fékk Malín skyndilegan áhuga fyrir tedrykkju og skáparnir fylltust af ólíkum tesortum. Eftir að hafa horft á tepakkningarnar í nokkra daga fékk ég þá hugdettu að prófa að baka úr því. Kvöld eitt þegar rigningin dundi á gluggana og strákarnir sátu við eldhúsborðið að gera heimanámið ákvað ég að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Úr varð að ég bakaði möffins með bláberjatei sem ég sprautaði rjómaostakremi yfir og bauð upp á með kvöldkaffinu við miklar vinsældir. Bláberjateið fór vel með kreminu sem hafði sítrónukeim en auðvitað má skipta því út fyrir aðrar bragðtegundir. Uppskriftina er því auðvelt að leika sér með.
Bláberjate möffins (ca 12 stk)
- 4 dl hveiti
- 3 dl sykur
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- ½ tsk salt
- 3 tepokar af bláberjate
- 2 tsk sykur (til að merja teið með)
- 100 g smjör við stofuhita
- 2 dl mjólk
- 2 egg
- 1 tsk vanilludropar
Rjómaostakrem
- 60 g mjúkt smjör
- 5 dl flórsykur
- 1 tsk vanillusykur
- rifið hýði af einni sítrónu
- 100 g philadelphia rjómaostur
Hitið ofninn í 175°. Myljið teið úr tepokunum með 2 tsk af sykri í mortéli. Sigtið hveiti, sykur, matarsóda, lyftiduft, temulninginn og salt í skál og bætið smjörinu og 1 dl af mjólk út í. Hærið saman í slétt deig. Hrærið því sem eftir er af mjólkinni, eggjunum og vanilludropum saman í annari skál og blandið því síðan saman við deigið. Setjið deigið í möffinsform og bakið í miðjum ofni í 12-18 mínútur (fer eftir stærð á möffinsformunum).
Hrærið öllum hráefnum í kremið saman og smakkið til með flórsykrinum. Sprautið kreminu yfir möffinsin þegar hitinn er farinn úr þeim.