Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Í fjarveru okkar Malínar naut Öggi þess að dekra við strákana og mér sýnist hann hafa látið um það bil allt eftir þeim. Hér var horft á hverja geimmyndina á fætur annarri, farið í Bláa lónið, kvöldmaturinn borðaður fyrir framan sjónvarpið og málaður veggur í herberginu þeirra. Yfir kvöldmatnum í gær sögðu strákarnir að þetta hefðu verið æðislegir dagar. Jú, maður þakkar!

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Öggi hafði keypt kjúklingabringur til að hafa í kvöldmatinn og þar sem við áttum pestókrukku í skápnum og fetaost í ísskápnum lá beinast við að hrúga öllu saman í einn rétt. Í eftirrétt bakaði ég síðan franska súkkulaðiköku sem við hrúguðum söltum hnetum yfir og toppuðum með karamellusósu. Ljúffengari endi á vikunni var ekki hægt að fá.

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

  • 150 g smjör
  • 150 g suðusúkkulaði, hakkað
  • 3 stór egg
  • 3 dl sykur
  • 1½ dl hveiti
  • ½ dl kakó

Hitið ofninn í 175°. Klæðið form í stærðinni 20×20 cm með smjörpappír.

Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti yfir lágum hita. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið bræddu súkkulaðiblöndunni saman við eggjablönduna. Bætið hveiti og kakói út í og hrærið saman í slétt deig. Setjið deigið í bökunarformið og bakið í 22-25 mínútur. Kakan á að vera þétt í sér, þurrari í kanntinum og svigna í miðjunni.

Kakan er best ef hún fær að taka sig í nokkra tíma áður en hún er borin fram. Skerið hana í bita, stráið vel af söltum hnetum yfir og hellið karamellusósu yfir. Við höfðum þetta einfalt og notuðum tilbúnar karamellusósur sem við áttum í skápnum og höfum verið að nota út á ís og jafnvel laumað smáveigis af í kaffibollana þegar enginn sér. Karamellusósur gera jú flest allt aðeins betra 🙂

Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

5 athugasemdir á “Frönsk súkkulaðikaka með söltum hnetum og karamellusósu

  1. Þetta lítur einum of girnilega út kona. Verð að prófa! Að vísu þarf ég að skipta út hveitinu vegna glútensins en gæti vel trúað að möndlumjöl gæti gengið líka. Mmmm.

    1. Æ, hvað ég vildi að ég kynni að ráðleggja varðandi að skipta hveitinu út. Að nota mjöndlumjöl hljómar þó vel. Karamellusósurnar eru alla vega glútenlausar og því óhætt að hella vel af henni yfir 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s