Mér hlotnaðist sá heiður að fá að gera nokkrar grilluppskriftir fyrir Hunt´s núna nýlega. Uppskriftirnar munu síðan birtast í grillbæklingi sem verður dreifður í verslanir á næstunni. Fjölskyldan varð himinlifandi yfir því kröftuga forskoti á grillsumarið sem fylgdi í kjölfarið og naut þess svo sannarlega að gæða sér á afrakstrinum. Þetta var æðislega skemmtilegt verkefni og því verður ekki neitað að grillaður matur er dásamlegur. Ég er ekki frá því að allur matur verði örlítið betri þegar hann er grillaður.
Ég fékk leyfi til að birta uppskriftirnar hér og þar sem ég fæ ekki betur séð en að veðurspáin bjóði upp á grillveður á morgun ætla ég að stinga upp á að föstudagspizzan verði þessi ljúffenga grillaða BBQ-pizza. Ég held að það verði enginn svikinn af henni og hér heima var barist um síðustu sneiðarnar. Föstudagspizzan gerist varla betri!
BBQ-Pizza (uppskriftin miðast við eina 16“ pizzu)
- Pizzadeig (keypt eða heimagert)
- 2 kjúklingabringur frá Rose Poultry
- ½ rauðlaukur
- 1 dl maísbaunir
- ½ dl. Hunt´s Orginal BBQ Sauce
- 50 g Philadelphia rjómaostur
- 60 g mozzarella ostur, rifinn
- 60 g cheddar ostur, rifinn
- ferkst kóriander
Sósa: Hunt´s BBQ orginal sósa og Philadelphia rjómaostur eru sett í matvinnsluvél og unnið saman.
Grill er hitað og áleggið á pizzuna haft tilbúið. Kjúklingabringur eru kryddaðar eftir smekk, eða marineraðar í BBQ-sósu, grillaðar og skornar í þunnar sneiðar. Rauðlaukur er skorinn í þunnar sneiðar.
Pizzadegið er flatt út, sett á heitt grillið og grillað þar til botninn er orðinn stökkur (ef grillið er 200° heitt þá tekur það um 3-4 mínútur). Botninum er þá snúið við og álegginu raðað yfir á þann hátt að fyrst er sósan smurð yfir botninn, þar á eftir er helmingur af ostinum settur yfir, síðan kjúklingurinn, rauðlaukurinn og maísbaunirnar, og að lokum seinni helmingurinn af ostinum. Grillinu er síðan lokað og pizzan grilluð áfram þar til osturinn hefur bráðnað.
Áður en pizzan er borin fram er fersku kóriander stráð yfir hana.
Þvílíkt góð pizza!!
Verður fljótt aftur í matinn hérna 🙂
Æðislega gaman að heyra. Takk fyrir að segja mér frá 🙂