Ég brá út af vananum um daginn og eldaði sér kvöldmat fyrir krakkana og síðar um kvöldið settumst við Öggi bara tvö niður. Það var notalegt að brjóta hversdagsleikann upp með síðbúnum kvöldverði yfir kertaljósi heima í eldhúsi. Bara með Ögga.
Ég útbjó dásamlega böku fyrir okkur sem var með smjördeigsbotni, parmesan-, spínat og blaðlauksfyllingu og toppuð með kirsuberjatómötum. Svo einfalt og svo ótrúlega gott. Baka sem sómir sér vel á hlaðborði, í saumaklúbbnum eða eins og við gerðum, með einföldu salati í kvöldmatinn. Áður en við vissum af var kvöldið liðið, bakan búin og við ákveðin í að gera þetta fljótlega aftur.
Parmesanbaka með spínati og kirsuberjatómötum
- 3 plötur smjördeig (um 250 g)
- 1 púrrulaukur
- 150 g spínat
- 100-150 g ferskrifinn parmesan
- 3 egg
- 1 dl rjómi
- 1 dós (400 g) kirsuberjatómatar í dós (ég notaði frá CIRIO)
- salt
- pipar
Fletjið smjördeigið út og þekjið bökumót sem er um 24 sm í þvermáli með því. Stingið um botninn með gaffli og látið síðan í frysti í 30 mínútur.
Hitið ofninn í 225°. Forbakið bökuskelina í 15 mínútur í miðjum ofni. Takið skelina að því loknu úr ofninum og lækkið hitann niður í 200°. Ef smjördeigið hefur blásið upp við baksturinn þá er botninum á því þrýst aftur niður.
Skolið púrrulaukinn og skerið hann í strimla. Hitið olíu á pönnu og steikið púrrulaukinn þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið þá spínatinu á pönnuna og steikið áfram þar til spínatið er orðið mjúkt.
Setjið púrrulauk, spínat og rifinn parmesanost í bökuskelina. Hrærið egg og rjóma saman og kryddið með salti og pipar. Hellið hrærunni yfir fyllinguna og toppið með hálfum kirsuberjatómtum.
Bakið í miðjum ofni í um 30 mínútur.
Flott baka, en mundi frekar nota heimagert bökudeig. Spelthveiti, vatn , smjör. Ótrulega einfalt, ódýrt og hollara.
Þetta er einfalt og virkileg gott. Flottar uppskrifti hér á síðunni þinni takk fyrir að deila með okkur.
Sælar,
Prófaði að gera þessa böku í morgun fyrir „Brunch“ afmælisveislu í dag og allir voru sammála um það hvað þetta væri æðislega góð baka. Takk fyrir mig, frábær síða, flottar uppskriftir og skemmtilega sagt frá.
Er hægt að gera þessa böku fyrirfram, daginn áður eða jafnvel frysta og hita svo upp?