Það fór lítið fyrir grillkvöldunum hjá mér þetta sumarið og í raun var grillið skammarlega lítið notað. Það fær þó að standa frammi eitthvað áfram, enda svo sem engin ástæða til að ganga frá því strax. Ég er vön að rúlla grillinu inn í skúr þegar haustlægðirnar byrja að ganga yfir því ég er svo hrædd um að það fari á flakk annars. Veit ekki hversu oft ég hef hlupið út á pall á náttsloppnum til að koma grillinu í skjól á haustnóttum. Ég vona að mér takist að koma í veg fyrir slík ævintýri í ár.
Ein vinkona mín sagði mér frá svo góðum hamborgurum sem þau hjónin gera sér stundum og ég mátti til með að prófa þá. Ég veit að þau eru snjöll í eldhúsinu og hef nú þegar birt aðra æðislega uppskrift frá þeim hér á blogginu, sem ég mæli svo sannarlega með. Þegar þau eru búin að grilla hamborgara á annari hliðinni þá snúa þau honum við og raða piparosti og mexíkóosti yfir (skera þá í þunnar sneiðar og leggja þá hlið við hlið yfir borgarann), setja svo rifsberjahlaup yfir ostana og ost (t.d. Gouda) yfir rifsberjahlaupið. Þau loka svo grillinu og leyfa þessu að bráðna yfir hamborgarann. Hamborgarinn er svo borinn fram með hefðbundu meðlæti og það er sérlega gott að setja líka sterkt sinnep á borgarann. Klikkaðslega gott!