Grillaðir BBQ hamborgarar

Grillaðir BBQ hamborgararSumarfríið mitt byrjar vel. Við höfum verið hér heima í rólegheitum, strákarnir mæta á fótboltaæfingar daglega og á kvöldin höfum við grillað og farið í kvöldgöngur. Í fyrrakvöld fórum við Elliðarárdalinn, hann svíkur aldrei með sinni veðursæld og náttúrufegurð og síðan hafa krakkarnir gaman af kanínunum þar. Í gærkvöldi gengum við síðan Reykjadalinn. Þangað ættu allir að fara. Að liggja þar í heitu náttúrulaugum á sumarkvöldum, það gerist varla dásamlegra. Ég setti pulsur í hitabrúsa, pakkaði pulsubrauðum, drykkjum og súkkulaði í bakpoka og bauð upp á í lauginni við miklar vinsældir.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Ég veit að það hefur verið mikið um grillrétti hér upp á síðkastið en ég er bara svo ánægð með að vera komin með almennilegt grill að við slökkvum varla á því. Um helgina grilluðum við hamborgara sem voru svo brjálæðislega góðir að ég má til með að gefa uppskrift af þeim. Í kvöld grilluðum við kjúkling sem ég verð líka að gefa ykkur uppskrift af, en það verður að vera síðar.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Ég las einhvern tímann hjá Jamie Oliver að það geri gæfumun að pensla hamborgara með blöndu af sinnepi og Tabasco á meðan þeir eru grillaðir. Það hefur reynst mér vel að fylgja því sem hann segir og  líkt og áður hafði hann rétt fyrir sér, hamborgararnir verða súpergóðir við þetta. Annað sem mér þykir gott að hafa á hamborgurum er  lauk sem hefur legið í ísköldu vatni. Við það að leggja laukinn í kalt vatn áður en hann er borinn fram verður hann svo stökkur og góður.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Við fullkomna hamborgaraveisluna með djúpsteiktum frönskum úr nýja djúpsteikingarpottinum okkar. Ég veit að það er mikið smartara og meira í tísku að kaupa djúsvél en mig hefur langað í djúpsteikingarpott í þó nokkurn tíma og þegar ég sá að Hagkaup er með 20% afslátt af öllum rafvörum í júlí ákvað ég að slá til. Potturinn kostaði tæpar 5 þúsund krónur með afslættinum og ég er hæstánægð. Franskar kartöflur verða svo margfalt betri við djúpsteikingu en það sem ég er þó aðallega spennt fyrir er að djúpsteikja camembert. Það mun heldur betur poppa ostabakkan upp. Við djúpsteiktum líka chili cheese sem við keyptum frosið og var skemmtileg viðbót í hamborgaraveisluna.

Grillaðir BBQ hamborgarar (ég gerði 8 hamborgara sem voru um 150 g hver)

  • 1 kg nautahakk
  • 2 dl Hunt´s Orginal BBQ sauce
  • salt og pipar
  • 1/2 dl gult sinnep (yellow mustard, t.d. frá Hunt´s)
  • Tabasco
  • beikon
  • cheddar ostur

Hrærið öllu saman og mótið 8 hamborgara (um 150 g hver). Hrærið saman gulu sinnepi og tabasco (magn eftir smekk, ég set ca 1/4 úr teskeið). Setjið hamborgarana á grillið og grillið beikonið samhliða. Penslið sinnepinu yfir hamborgarana á meðan þeir grillast og þegar þið snúið þeim við. Þegar hamborgararnir eru nánast fullgrillaðir er cheddar ostur settur yfir ásamt beikoni. Setjið hamborgarabrauðin yfir hamborgarann (lokið ofan á hamborgarann og botninn ofan á lokið, sbr. myndina hér að neðan) og lokið grillinu í smá stund á meðan osturinn bráðnar og brauðið hitnar.

Grillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgarar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s