Jógúrtís með granóla og berjum

Síðan ég rakst á sænsku Paulúns vörurnar síðastliðið haust og fékk samstundis gífurlegt nostalgíukast, hef ég byrjað ófáa dagana með skál af AB-mjólk með Paulúns múslí eða granóla. Ég sé til þess að eiga alltaf kassa bæði hér heima og í vinnunni til að geta sett út á Ab-mjólk eða gríska jógúrt þegar ég er svöng. Mér þykir það fljótlegt og gott en bæði múslíið og granólað er það besta sem ég hef keypt. Ég held enn í vonina að sjá fleiri vörur frá Paulúns bætast í hillur verslanna.

Í veðurblíðunni sem var hér um síðustu helgi, og hvarf því miður jafn skjótt og hún kom, bjó ég til íspinna úr grískri jógúrt sem ég bætti granóla og bláberjum í. Þeir vöktu mikla lukku og voru fljótir að klárast. Íspinnarnir eru í raun frábær morgunverður og sniðugir sem millimál því múslíið er ekki með viðbættum sykri og því hægt að gefa krökkunum þá í morgunmat eða eftir skóla með góðri samvisku. Einfalt og súpergott!

Jógúrtís með granóla og berjum

  • 2 dl grísk jógúrt
  • ½ tsk vanillusykur eða vanilluduft
  • 2 tsk hunang
  • fersk ber, t.d. bláber eða hindber
  • Paulúns granola með kakó og hindberjum
  • ísform (fást t.d. fyrir lítinn pening í Ikea)

Blandið saman grískri jógúrt, vanillusykri og hunangi. Setjið á víxl í ísform jógúrtblönduna, granóla og ber. Sláið ísformunum nokkrum sinnum í borðið til að loftið fari úr þeim og setjið svo í frysti.

 

 

Himneskur ís

Þessi ís er eitt best geymda leyndarmál heimilisins og alveg öruggt kort að spila út ef ég ætla að slá í gegn í eldhúsinu án þess að hafa mikið fyrir því. Ísinn fékk viðurnefnið himneski ísinn frá Ögga því hann kallar hann aldrei annað. Mér finnst heimatilbúinn ís oft eiga það til að verða of harður og erfiður viðureignar. Þessi ís er ekki þannig því þó hann sé nýkominn úr frystinum er léttilega hægt að skera hann eða gera ískúlu úr honum. Hann er yndislegur í alla staði og ég held hreinlega að þetta sé besti heimagerði ís sem ég hef smakkað.

Þegar við vorum með kveðjuboðið áður en Malín hélt til Svíþjóðar gerði ég þennan ís í eftirrétt. Malín elskar eftirrétti og kann gott að meta í þeim efnum. Hún var þó ekki ein um að kunna meta þennan ís því öllum þótti hann alveg æðislegur.

Það er ekki hægt að gera einfaldari ís en þennan og það tekur ekki nema nokkrar mínútur að útbúa hann. Þetta er eiginlega of gott til að vera satt.  Það þarf bara rjóma og niðursoðna sæta mjólk og síðan er hægt að bragðbæta ísinn eftir smekk. Þegar ég gerði hann fyrir kveðjuboðið átti ég súkkulaðidropa og 2 poka af m&m með hnetusmjöri sem ég setti út í og á síðustu stundu (algjör skyndiákvörðum sem kom þegar búið var að mynda innihaldið) ákvað ég að bæta líka hnetusmjöri í ísinn. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað það var gott.

Ís

  • 5 dl rjómi
  • 1 dós niðursoðin sæt mjólk (ég keypti hana í Kosti)

Rjóminn er þeyttur þar til hann byrjar að mynda mjúka toppa. Hrærið áfram á lágum hraða og bætið niðursoðnu mjólkinni út í í mjórri bunu. Blandið vel saman. Bragðbætið eftir smekk og frystið í minnst 6 klukkutíma.