Dutch Baby

Gunnar tók sig til eftir leik um daginn og bjó til Dutch Baby. Hann hefur eflaust verið svangur og legið lífið á að koma matnum á borðið því ég sé að hann er enn í keppnistreyjunni við baksturinn. Þetta vakti slíka lukku að það var barist um síðustu bitana. Megahittari!!

Dutch Baby – uppskrift fyrir 2-3

 • 3 stór egg
 • 2/3 bolli nýmjólk
 • 2 msk sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 1/2 bolli hveiti
 • 1 msk smjör
 • Tillögur að meðlæti: flórsykur, hlynsýróp, fersk ber, Nutella, sítrónusafi eða smjör.

Hitið 25 cm steypujárnspönnu (eða eldfast mót) miðjan ofn og hitið í 230°.

Setjið eggin í rúmgóða skál og hrærið þar til þau eru létt og ljós, um 2 mínútur. Bætið mjólk, sykri, salti og vanilludropum saman við og hrærið saman. Sigtið hveiti út í blönduna og hrærið þar til hefur blandast saman (passið að hræra ekki of lengi). Látið deigið standa í 5-10 mínútur.

Takið pönnuna varlega úr ofninum, setjið smjörið í hana og látið bráðna. Hallið pönnunni til hliðanna svo smjörið dreifist um hana. Hellið deiginu í heita pönnuna og setjið hana aftur í ofninn (passið að loka ofninum snögglega svo að ofninn missi sem minnstan hita við þetta). Bakið í 15 mínútur eða þar til hliðarnar hafa blásið upp og pönnukakan er orðin fallega gyllt á litinn. Takið úr ofninum, stráið smá flórsykri yfir og berið strax fram.

Jógúrtís með granóla og berjum

Síðan ég rakst á sænsku Paulúns vörurnar síðastliðið haust og fékk samstundis gífurlegt nostalgíukast, hef ég byrjað ófáa dagana með skál af AB-mjólk með Paulúns múslí eða granóla. Ég sé til þess að eiga alltaf kassa bæði hér heima og í vinnunni til að geta sett út á Ab-mjólk eða gríska jógúrt þegar ég er svöng. Mér þykir það fljótlegt og gott en bæði múslíið og granólað er það besta sem ég hef keypt. Ég held enn í vonina að sjá fleiri vörur frá Paulúns bætast í hillur verslanna.

Í veðurblíðunni sem var hér um síðustu helgi, og hvarf því miður jafn skjótt og hún kom, bjó ég til íspinna úr grískri jógúrt sem ég bætti granóla og bláberjum í. Þeir vöktu mikla lukku og voru fljótir að klárast. Íspinnarnir eru í raun frábær morgunverður og sniðugir sem millimál því múslíið er ekki með viðbættum sykri og því hægt að gefa krökkunum þá í morgunmat eða eftir skóla með góðri samvisku. Einfalt og súpergott!

Jógúrtís með granóla og berjum

 • 2 dl grísk jógúrt
 • ½ tsk vanillusykur eða vanilluduft
 • 2 tsk hunang
 • fersk ber, t.d. bláber eða hindber
 • Paulúns granola með kakó og hindberjum
 • ísform (fást t.d. fyrir lítinn pening í Ikea)

Blandið saman grískri jógúrt, vanillusykri og hunangi. Setjið á víxl í ísform jógúrtblönduna, granóla og ber. Sláið ísformunum nokkrum sinnum í borðið til að loftið fari úr þeim og setjið svo í frysti.

 

 

Morgunverður

Morgunverður

Það væri synd að segja að ég væri mikil morgunverðarmanneskja á virkum dögum. Ég fæ mér sama morgunverðinn svo mánuðum skiptir án þess að fá leið á honum. Undanfarnar vikur hef ég fengið mér AB-mjólk með múslí, sem ég set í kaffibolla og moka í mig á hlaupum eða við tölvuna í vinnunni. Í fleiri mánuði þar á undan fékk ég mér hafragraut með kanil. Þetta snýst einfaldlega um að útbúa eitthvað fljótlegt sem stendur með mér fram að hádegi.

Morgunverður

Um helgar er þó önnur saga. Það sem ég elska helgarmorgunverðina! Að útbúa góðan morgunverð og sitja lengi yfir honum. Nú þegar börnin eru orðin svona stór og farin að sofa fram eftir fara helgarnar rólega af stað. Ég læðist um, kveiki lágt á útvarpinu, geri mér góðan morgunverð og bæði fletti blöðum og kíki á blogg á meðan ég borða hann. Mér þykir þetta alltaf jafn notaleg stund.

Morgunverður

Nú er ég búin að finna morgunverð sem hentar mér bæði á virkum dögum og um helgar. Hafragrautur! Eftir að mér var bent á að bragðbæta hann með sultu og fræjum opnaðist nýr heimur fyrir mér. Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að ég er hrifin af sultunum frá St. Dalfour en þær passa sérlega vel í grautinn þar sem í þeim er hvorki viðbættur sykur né litar- og rotvarnarefni. Ég set síðan þau fræ og ber sem ég á að hverju sinni yfir og úr verður lúxusgrautur sem tekur stutta stund að útbúa og gefur gott start inn í daginn.

Morgunverður

Hafragrautur

 • 1 dl haframjöl
 • 2 dl vatn
 • smá salt
 • sulta
 • fræ og/eða ber

Í potti: Setjið haframjöl, vatn og salt í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í skamma stund.

Í örbylgjuofni: Setjið haframjöl, vatn og salt í skál og hitið í 1 ½ – 2 mínútur á fullum styrk.

Setjið sultu og ber/fræ yfir og njótið.

Góð byrjun á deginum

Góð byrjun á deginum

Ég efast ekki um að flesti leggi meira í morgunverðinn um helgar en á virkum dögum. Ég gef mér varla tíma fyrir morgunverð yfir vinnuvikuna en bæti þó vel upp fyrir það um helgar. Fæ æði fyrir einhverjum ákveðnum helgarmorgunmat og borða það sama helgi eftir helgi svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir áður en ég breyti til. Þessar kotasælupönnunkökur voru fastur liður hér á borðum í ansi langan tíma og ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef hitað frosið crossant í ofninum og fyllt þau síðan með eggjahræru og skinku.

Góð byrjun á deginum

Nýjasta æðið eru ristaðar beyglur með rjómaosti og góðri sultu (sulturnar frá St. Dalfour eru í algjöru uppáhaldi). Þetta æði hófst um það leiti sem nýja brauðristin kom í hús en á henni er sérstök beyglustilling sem ristar þær fullkomlega (það er líka hægt að hita beyglurnar í ofni sé þessi fítus ekki til staðar á brauðristinni). Ef ég ætla að gera virkilega vel við mig geri ég heitt súkkulaði með rjóma með. Svo ótrúlega notaleg byrjun á deginum. Ég mæli með þessu, sérstaklega núna þegar það er kuldalegt úti og extra notalegt að sitja inni yfir góðum morgunverði og lesa blaðið í ró og næði.

Góð byrjun á deginum

Og úr helgarmorgunverðinum í helgarkvöldverðinn. Ef þið eruð hugmyndasnauð fyrir helgarmatnum þá sting ég upp á Pad thai á föstudagskvöldinu, kjúkling með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu á laugardagskvöldinu og hægeldað boeuf bourguignon á sunnudagskvöldinu. Að því sögðu óska ég ykkur góðrar helgar.

Kjúklinga Pad ThaiKjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósuBoeuf bourguignon

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Það eru ár og aldir síðan ég vakti krakkana með amerískum pönnukökum, beikoni og eggjahræru en í páskafríinu lét ég verða af því. Ég gæti vel byrjað alla daga á svona veislu, en þá þyrfti ég líka að geta lagt mig aftur alla daga því ég borða alltaf yfir mig. Ég set bæði smjör og hlynsýróp á pönnukökuna mína og fæ mér eggjahræru og beikon með. Síðan vil ég drekka góðan appelsínusafa eða heilsusafa með miklum klökum. Krakkarnir fá sér ýmist hlynsýróp, eggjahræru og beikon eða nutella og jarðaber á sínar pönnukökur. Og ef það verður afgangur af pönnukökunum, þá set ég þær í plast og krakkarnir stinga þeim í brauðristina þegar líður á daginn og smyrja með smjöri og osti.

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræranAmerískar pönnukökur og besta eggjahræranAmerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Amerískar pönnukökur

 • 3 bollar hveiti
 • 1 bolli sykur
 • 4 tsk lyftiduft
 • 1 egg
 • mjólk eftir þörfum (ca 2 bollar)

Hrærið öllu saman þar til deigið er slétt og kekkjalaust. Steikið á pönnu í bræddu smjöri við vægan hita og snúið við þegar loftbólur myndast. Borið fram með smjöri, sýrópi, beikoni og öllu því sem hugurinn girnist. Ef svo ólíklega vill til að það verði pönnukökur í afgang þá er gott að hita þær upp í brauðristinni.

Eggjahræra

 • 1 msk rjómi á móti 1 eggi

Hrærið saman eggjum og rjóma og steikið við miðlungsháan hita (passið að hafa hann ekki of háan). Hrærið stöðugt í eggjahrærunni á meðan hún er að steikjast. Takið pönnuna af hitanum rétt áður en eggjahræran er tilbúin og klárið að steikja hana á bara eftirhitanum í pönnunni. Eggjahræran á alls ekki að vera þurr og því gott að klára eldamennskuna á þann máta.

Ofnsteikt beikon

Raðið beikonsneiðum á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og setjið í 200° heitan ofn í um 10 mínútur.

Kaldur hafragrautur – frábær morgunmatur!

Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!

Ég hef komist að því að ég er rútínumanneskja fram í fingurgóma þegar kemur að morgunmat og það finnst varla flippuð taug í mér í þeim efnum. Undanfarna mánuði hef ég byrjað dagana á grænum safa og heimagerðu fræhrökkbrauði með avokadó. Sami morgunmatur alla virka daga. Um helgar hef ég hins vegar gert mér dagamun með eggjahræru og hrökkbrauði. Það geri ég þó allar helgar. Þið sjáið að það er lítið flipp í þessu. Mér þykir grænn safi og hrökkbrauð bara vera svo æðislegur morgunverður og góð byrjun á deginum og um helgar er svo notalegt að setjast niður með blaðið og eggjahræruhrökkbrauð.

Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!

Núna ákvað ég hins vegar að breyta til (kannski því það var að koma nýtt ár, hver veit hvaðan þessi brjálæðislega flippaða hugdetta kom). Ég ákvað að skipta græna safanum út fyrir kalda hafragrautinn frá Sollu, þó í útfærslu Köru vinkonu minnar sem er snillingur í öllu og þessi hafragrautsútfærsla hennar en algjör snilld. Ég gerði grautinn oft hér áður fyrr því strákarnir mínir eru svo ánægðir með hann. Þeir taka hann með sér í nesti í skólann og fá sér hann fyrir æfingar. Ég vil því gjarnan eiga hann í ísskápnum. Það er súper fljótlegt og einfalt að gera grautinn og hann geymist í 5 daga í ísskáp. Það er því upplagt að útbúa hann á sunnudagskvöldum og eiga í morgunmat/nesti/millimál fram í vikuna.

Hafragrautur (uppskriftin gefur um 5 skammta)

 • 2 dl tröllahafrar
 • 1 epli, kjarnhreinsað og skorið í bita
 • ½ dl graskersfræ
 • 1 tsk kanil
 • ½ dl hakkaðar möndlur
 • 2 ½ dl vatn
 • smá salt

Blandið öllu saman í skál, setjið lok yfir og látið standa í ísskáp yfir nótt. Geymist í 5 daga í loftþéttu íláti inni í ísskáp.

Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!Kaldur hafragrautur - frábær morgunmatur!

Einfalt og hollt lágkolvetna granóla

Lágkolvetna granóla

Upp á síðkastið hafa virku dagarnir hjá mér byrjað á ab-mjólk með heimagerðu granóla. Það er svo fljótgerður, hollur og góður morgunverður sem endist mér vel fram að hádegi. Ég kaupi nánast aldrei tilbúið granóla því mér þykir heimagert svo mikið betra og þegar ég geri það sjálf þá veit ég líka hvað er í því. Það er svo svakalega lítið mál að gera granóla að það nær engri átt. Tekur enga stund og það er svo góð tilfinning að eiga þetta í skápnum.

Lágkolvetna granólaÉg hef prófað ýmsar uppskriftir (þetta er enn í algjöru uppáhaldi) og ákvað núna síðast að prófa uppskrift sem ég sá á lágkolvetnasíðu (og ef einhver heldur núna að ég sé á lágkolvetnafæði þá er svarið nei, svo sannarlega ekki!) og hafði fengið góða umsögn. Næst mun ég auka kókosmjölið í uppskriftinni því ég hefði viljað hafa það örlítið sætara en það gæti líka verið sniðugt að bæta rúsínum í það.

Lágkolvetna granóla

Granóla (uppskrift frá 56kilo.se)

 • 2 dl hakkaðar möndlur
 • 2 dl hakkaðar heslihnetur
 • 1 dl sólblómafræ
 • 1 dl graskersfræ
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1/3 dl hörfræ
 • 1 tsk vanilluduft (eða vanillusykur)
 • 1 msk kakó
 • 3 msk kókosolía (látið hana bráðna svo hún verði fljótandi)
 • 1 msk hunang (má sleppa)

Lágkolvetna granólaBlandið öllu saman og dreifið úr á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Bakið við 150° í um 20-30 mínútur (fylgist með undir lokin svo það brenni ekki). Hrærið nokkrum sinnum í granólanu á meðan það er í ofninum.

Lágkolvetna granóla

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Ég get ekki hætt að gleðjast yfir veðurblíðunni sem hefur verið undanfarna daga. Lífið verður svo mikið skemmtilegra þegar veðrið er svona gott. Það er eins og allt lifni við, hverfið iðar af lífi og krakkarnir gefa sér varla tíma til að koma inn að borða. Á sunnudaginn borðuðum við morgunmatinn úti á palli í fyrsta sinn á þessu ári og bæði mánudag og þriðjudag borðaði ég hádegismat undir berum himni, í glampandi sólskini. Það er ekki annað hægt en að gleðjast yfir svona ljúfum dögum.

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Um síðustu helgi leitaði ég enn og aftur í smiðju Ree Drummond þegar mig langaði að vera með góðan helgarmorgunverði. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég hef enn ekki orðið fyrir vonbrigðum með uppskrift frá henni. Þessi var engin undantekning og sló rækilega í gegn hjá krökkunum. Hræruna er hægt að útbúa deginum áður og geyma í ísskáp í lokuðu íláti. Þá tekur enga stund að reiða morgunverðinn fram.

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru

Beyglur með beikon-, eggja- og cheddarhræru (fyllingin dugar á 6 beygluhelminga)

 • 6 beikonsneiðar, steiktar og hakkaðar
 • 6 harðsoðin egg, skurnin tekin af og eggin hökkuð
 • 1 bolli rifinn cheddar ostur
 • 1/2 bolli majónes
 • 1/2 msk Dijon sinnep
 • 1/4 tsk hvítlauksduft
 • 1/2 tsk Worcestershire sósa
 • 3 beyglur

Hrærið beikoni, eggjum, cheddar osti, majónesi, dijon sinnepi, hvítlauksdufti og Worcestershire sósu saman.

Kljúfið beyglurnar og hitið þær í 200° heitum ofni í 3-4 mínútur. Setjið þá fyllinguna yfir beyglurnar og hitið í 4 mínútur til viðbótar.

Bláberjasmoothie

 

BláberjasmoothieEins og ég hef gaman af því að prófa nýjungar í matargerð þá er ég fáránlega einhæf í morgunmatnum á virkum dögum. Um helgar nýt ég þess að byrja dagana á nýbökuðum pönnukökur með öllu tilheyrandi en á virkum dögum borða ég það sama dag eftir dag. Ég veit ekki hversu lengi ég byrjaði dagana á hrökkbrauði með osti og heilsusafa, enn lengur á hafragraut með allt of miklum kanil og mig grunar að nýjasta æðið muni slá öll vinsældarmet hjá mér, bláberjasmoothie. Mér þykir það sjúklega gott!

Bláberjasmoothie

Það líða nákvæmlega 5 mínútur frá því að ég stíg inn í eldhúsið á morgnana þar til ég er búin að gera drykkinn, setja hann í töskuna mína og ganga frá í eldhúsinu eftir mig. Ég tek hann alltaf með mér og drekk ýmist í bílnum á leiðinni í vinnuna eða þegar ég er komin þangað. Þá er klukkan 8 og drykkurinn stendur með mér til hádegis. Ég elska hann fyrir það! Á hrökkbrauðstímabilinu var ég alltaf orðin svöng aftur um klukkan 10 og fannst það glatað.

BláberjasmoothieHér áður fyrr forðaðist ég að nota blandarann minn því mér þótti svo leiðinlegt að þvo hann. Ég lærði síðan aðferð við þvo hann á svipstundu og síðan þá hefur hann verið í stöðugri notkun. Trixið er að um leið og ég er búin að nota blandarann þá skola ég hann snögglega upp úr heitu vatni, set síðan vatn í hann svo rétt nái yfir hnífinn í botninum, nokkra dropa af uppþvottalaugi og skelli síðan blandaranum aftur í gang í nokkrar sekúndur. Síðan skola ég sápuna bara úr og læt skálina þorna.

Bláberjasmoothie

Þar sem ég tek drykkinn alltaf með mér á morgnana þá fór ég á stúfana eftir góðu íláti sem ég gæti áhyggjulaust haft í töskunni án þess eiga hættu á að það myndi leka. Vinkona mín benti mér á að bestu ílátin undir svona drykki væru frá Lock & Lock. Þau fást í Hagkaup og kosta undir 700 krónum. Uppskriftin passar akkúrat í ílátið og ég hendi því óhrædd í töskuna mína eins og vinkona mín segist gera með sitt. Það hefur aldrei lekið dropi úr því!

Bláberjasmoothie

 • 3 dl létt AB-mjólk
 • 1 ½ dl frosin bláber
 • 1/2 banani
 • 1½ msk chia fræ

Allt sett í matvinnsluvél og unnið vel saman.

 

Puffed pancake

Puffed pancake

Um síðustu helgi prófaði ég að gera „puffed pancake“ í morgunmat. Það tók enga stund og krakkarnir voru svo ánægð með þessa byrjun á deginum að þau kláruðu pönnukökuna áður en ég náði að smakka hana. Ég hef því ekki hugmynd um hvernig hún bragðaðist en þau gáfu henni bestu einkunn. Það eru eflaust til betri uppskriftir en þessi féll vel í kramið hjá krökkunum og ég hlakka til að prófa hana aftur og smakka sjálf.

Puffed Pancake

Ég bar pönnukökuna fram með jarðaberjum, flórsykri, hlynsýrópi og rjóma en hér er tækifæri til að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Mér dettur í hug að það gæti verið gott að bera pönnukökuna fram með t.d. bláberjum, hindberjum, ávöxtum, banana, möndluflögum, kókosflögum, hlynsýrópi, sítrónusafa, Nutella…

Puffed pancake (ein pönnukaka sem hverfur á svipstundu ofan í þrjú börn)

 • 2 egg
 • ½ bolli mjólk
 • ½ bolli hveiti
 • smá salt
 • smá kanil
 • 1 msk smjör

Hitið ofninn í 215°.

Á meðan ofninn hitnar er smjörið látið bráðna í bökunarformi í ofninum. Hrærið egg, mjólk, hveiti, salt og kanil saman í skál. Hellið deiginu í heitt bráðið smjörið í bökunarforminu. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til pönnukakan er stíf og uppblásin meðfram kanntinum. Kakan sekkur aðeins niður þegar hún kemur úr ofninum. Berið strax fram.