Það væri synd að segja að ég væri mikil morgunverðarmanneskja á virkum dögum. Ég fæ mér sama morgunverðinn svo mánuðum skiptir án þess að fá leið á honum. Undanfarnar vikur hef ég fengið mér AB-mjólk með múslí, sem ég set í kaffibolla og moka í mig á hlaupum eða við tölvuna í vinnunni. Í fleiri mánuði þar á undan fékk ég mér hafragraut með kanil. Þetta snýst einfaldlega um að útbúa eitthvað fljótlegt sem stendur með mér fram að hádegi.
Um helgar er þó önnur saga. Það sem ég elska helgarmorgunverðina! Að útbúa góðan morgunverð og sitja lengi yfir honum. Nú þegar börnin eru orðin svona stór og farin að sofa fram eftir fara helgarnar rólega af stað. Ég læðist um, kveiki lágt á útvarpinu, geri mér góðan morgunverð og bæði fletti blöðum og kíki á blogg á meðan ég borða hann. Mér þykir þetta alltaf jafn notaleg stund.
Nú er ég búin að finna morgunverð sem hentar mér bæði á virkum dögum og um helgar. Hafragrautur! Eftir að mér var bent á að bragðbæta hann með sultu og fræjum opnaðist nýr heimur fyrir mér. Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að ég er hrifin af sultunum frá St. Dalfour en þær passa sérlega vel í grautinn þar sem í þeim er hvorki viðbættur sykur né litar- og rotvarnarefni. Ég set síðan þau fræ og ber sem ég á að hverju sinni yfir og úr verður lúxusgrautur sem tekur stutta stund að útbúa og gefur gott start inn í daginn.
Hafragrautur
- 1 dl haframjöl
- 2 dl vatn
- smá salt
- sulta
- fræ og/eða ber
Í potti: Setjið haframjöl, vatn og salt í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í skamma stund.
Í örbylgjuofni: Setjið haframjöl, vatn og salt í skál og hitið í 1 ½ – 2 mínútur á fullum styrk.
Setjið sultu og ber/fræ yfir og njótið.