Um síðustu helgi prófaði ég að gera „puffed pancake“ í morgunmat. Það tók enga stund og krakkarnir voru svo ánægð með þessa byrjun á deginum að þau kláruðu pönnukökuna áður en ég náði að smakka hana. Ég hef því ekki hugmynd um hvernig hún bragðaðist en þau gáfu henni bestu einkunn. Það eru eflaust til betri uppskriftir en þessi féll vel í kramið hjá krökkunum og ég hlakka til að prófa hana aftur og smakka sjálf.
Ég bar pönnukökuna fram með jarðaberjum, flórsykri, hlynsýrópi og rjóma en hér er tækifæri til að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Mér dettur í hug að það gæti verið gott að bera pönnukökuna fram með t.d. bláberjum, hindberjum, ávöxtum, banana, möndluflögum, kókosflögum, hlynsýrópi, sítrónusafa, Nutella…
Puffed pancake (ein pönnukaka sem hverfur á svipstundu ofan í þrjú börn)
- 2 egg
- ½ bolli mjólk
- ½ bolli hveiti
- smá salt
- smá kanil
- 1 msk smjör
Hitið ofninn í 215°.
Á meðan ofninn hitnar er smjörið látið bráðna í bökunarformi í ofninum. Hrærið egg, mjólk, hveiti, salt og kanil saman í skál. Hellið deiginu í heitt bráðið smjörið í bökunarforminu. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til pönnukakan er stíf og uppblásin meðfram kanntinum. Kakan sekkur aðeins niður þegar hún kemur úr ofninum. Berið strax fram.
Lítur ofsalega vel út! Ég er að reyna að sjá af myndunum hversu stórt bökunarformið er, frekar lítið er það ekki?
Bökunarformið sem ég notaði var 22 cm en ég held að uppskriftin þoli alveg 24 cm form 🙂
þetta heitir „yorkshire pudding“ á englandi!