Sumarið 2001 voru matreiðsluþættir með Jamie Oliver sýndir í sænska sjónvarpinu. Ég missti helst ekki af þætti og þegar mér leist vel á uppskriftirnar reyndi ég að skrifa þær niður. Það var oft hægara sagt en gert og á endanum gafst ég upp og keypti mér matreiðslubókina. Síðan þá hef ég eignast margar bækur eftir hann og hef enn ekki verið svikin af uppskriftunum.
Það var þetta sumar sem ég eldaði í fyrsta sinn fiskbökuna hans Jamie Oliver. Okkur þótti hún stórgóð og um daginn fékk ég æðislega löngun í að elda hana aftur. Ég dró því gömlu bókina fram og mánudagsfiskinum var reddað.
Jamie Oliver segir að rétturinn eigi að vera heimilislegur og tilgerðarlaus og ber hann fram með bökuðum baunum og tómatsósu, sem sé ósmekklegt en gott eins og hann vill hafa það. Samsetningin kann að hljóma furðulega en hún kemur á óvart og allt fer þetta mjög vel saman.
Fiskbakan frábæra (uppskrift frá Jamie Oliver)
- 6 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í bita
- ólífuolía (eða smjör)
- salt og nýmalaður svartur pipar
- múskat (má sleppa)
- 2 egg
- 2 stórir hnefar af spínati
- 1 laukur, saxaður smátt
- 1 gulrót, skorin í tvennt og söxuð smátt
- 2,5 dl rjómi
- 2 vænir hnefar af rifnum cheddar- eða parmesanosti
- safi úr 1 sítrónu
- 1 kúfuð teskeið enskt sinnep
- stór hnefi af steinselju, söxuð smátt (má sleppa)
- 450 g ýsu- eða þorskflök, roðflett, beinhreinsuð og skorið í ræmur
Hitið ofninn í 230°.
Setjið kartöflurnar í sjóðandi saltað vatn og látið þær sjóða í 2 mínútur. Setjið eggin varlega út í og sjóðið þau í 8 mínútur. Eggin eiga þá að vera orðin harðsoðin og kartöflurnar líka soðnar. Gufusjóðið spínatið um leið í sigti ofan á pottinum (það tekur bara um 1 mínútu). Takið spínatið úr sigtinu, kreistið varlega úr því umframvætu og leggið til hliðar.
Takið eggin úr pottinum, kælið undir köldu vatni, takið utan af þeim og skerið í fernt. Leggið til hliðar.
Stappið kartöflurnar og setjið ólívuolíu eða brætt smjör saman við þær (ég nota alltaf smjör). Kryddið með salti, pipar og jafnvel smá múskati. Leggið til hliðar.
Steikið lauk og gulrót í ólífuolíu við vægan hita í um 5 mínútur. Hellið þá rjóma yfir og hitið að suðu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið osti, sítrónusafa, sinnepi og steinselju saman við.
Setjið fiskinn, spínatið og eggin í eldfast mót. Hellið rjómasósunni með grænmetinu yfir og endið á að setja kartöflumúsina ofan á. Setjið í ofn í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar á lit. Berið fram með bökuðum baunum og tómatsósu.
Sæl Svava,
Takk fyrir að vera í e´dhúsinu fyrir okkur. Það sem ég hef prófað frá þér hefur allt verið mjög gott.
Ertu til í að segja mér hvað þþessi bók hans Jamie heitir…ég er matreiðslubóka sjúk, þó enda ég alltaf á því að búa til mina eigin rétti.
Ég bjó í mörg ár í London og víðar á Englandi og nú bý ég á Spáni og hef gert sl. 15 árin.
Svo eg ég á ekki þessa bók Jamie, þá langar mig að skoða hana á Amazon og kaupa hana.
Bestu þakkir.
Kristín Bergmann
Sæl Kristín.
Bókin heitir Kokkur án klæða snýr aftur. Þú finnur hana hér:
http://www.amazon.com/Return-Naked-Oliver-Jamie-Hardcover/dp/B00GSCVL7U/ref=sr_1_3?ie=UTF8&qid=1391637225&sr=8-3&keywords=naked+chef+returns