Boeuf bourguignon

Boeuf bourguignon

Ég furða mig stundum á því hvað ég get látið mig dreyma um hluti í langan tíma án þess að fjárfesta í þeim. Ég veit til dæmis ekki hvað mig hefur lengi langað í góðan steypujárnspott og hversu oft ég hef skoðað þá, án þess að kaupa mér slíkan. Ég á einn fínan úr Ikea en hann er full lítill og mig hefur langað í stærri pott. Pott sem ég get eldað kvöldmat fyrir fjölskylduna í.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Að því sögðu get ég nú glöð sagt frá að það flutti nýr steypujárnspottur inn í eldhúsið mitt á dögunum. Hann er æðislegur! Frábært að elda í honum og fallegur á borði. Fyrir valinu varð pottur frá Pyrex, en þeir voru þróaðir í samstarfi við NASA og þola frá -40°upp í 800°hita! Pottarnir eru að fá svo frábæra dóma og eftir að ég rakst á þá í Hagkaup fannst mér spennandi að slá til. Þeir eru frábærir til að hægelda mat en einnig til að baka ofnbrauð, eins og t.d. New York times-brauðið góða.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Fyrsti rétturinn sem ég eldaði í pottinum langþráða var boeuf bourguignon, sem fékk að hægeldast yfir daginn og almáttugur minn eini hvað rétturinn var góður. Ég bar réttinn bara fram með heimagerðri kartöflumús enda þurfti ekki meira meðlæti. Kjötið bráðnaði í munni og sósan var dásamlega bragðgóð.

Boeuf bourguignonBoeuf bourguignon

Boeuf bourguignon – uppskrift fyrir 6

  • 1 kg nautahnakki
  • 200 g beikon
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 4 dl rauðvín
  • 2 msk tómatpúrra
  • 2 nautateningar
  • vatn (ca 6 dl, eða eins og þarf til að rétt fljóta yfir kjötið)
  • 10 sveppir
  • 5 perlulaukar
  • ólífuolía og smjör
  • salt og pipar
  • 2 lárviðarlauf
  • 1/2 tsk timjan
  • steinselja
Skerið kjötið í passlega stóra grýtubita og skerið beikonið í strimla. Hakkið laukinn. Bræðið smjör og olíu á pönnu við háan hita og steikið nautakjötið og laukinn, gjarnan í nokkrum skömmtum svo að kjötið brúnist vel. Saltið og piprið kjötið vel. Færið yfir í steypujárnspott og bætið vatni, rauðvíni, nautakraftsteningum, tómatpúrru og pressuðum hvítlauk í pottinn. Látið pottinn yfir miðlungsháan hita (sirka stilling 3-4 af 9). Steikið núna beikonið á pönnunni sem kjötið var á og bætið því svo í pottinn, sem ætti núna að vera byrjaður að sjóða vægt. Bætið timjan og lárviðarlaufi í pottinn og leyfið nú að sjóða í amk 1-2 klst en því lengur því betra (ég lét réttinn sjóða við mjög vægan hita allan daginn, örugglega hátt í 6 klst). Rétt áður en rétturinn er borinn fram eru sveppirnir skornir í fernt ásamt perlulauknum, steikt í vel af smjöri og síðan bætt í pottinn og látið liggja þar í smá stund. Áður en rétturinn er borinn á borð er hakkaðri ferskri steinselju stráð yfir.

8 athugasemdir á “Boeuf bourguignon

  1. Nautahnakki fæst ekki í hvaða Hagkaupsverslun sem er greinilega, og ekki í hvaða kjötbúð sem er með neinum fyrirvara. Sem betur fer var farið að leita að hnakka með góðum fyrirvara. Ein kjötbúð gat reddað þessu fyrir helgina þegar var byrjað að leita að þessu á þriðjudegi og það var bara með hjálp google og útskýringarmynd (greinilega ekki mikið selt hér á landi). Hlakka til að prófa þetta á morgunn þegar ég tek á móti sex manns í matarboð (krossa fingur og signa mig að þetta takist þokkalega, í versta falli pöntuð Domino´s).

    1. Í alvöru? Ég rakst á nautahnakkann í Hagkaup í Kringlunni, meira að segja á tilboði. Mikið vona ég að þú verðir ánægður með réttinn og sleppir við að panta pizzuna. Að þetta vesen verði þess virði!

      >

  2. Sæl Svava. Getur þú sagt mér hvaða tegund/stærð af Pyrex potti þetta er? Ég er búin að vera að velta fyrir mér hentugri stærð af svona tegund af potti en kemst ekki að niðurstöðu. Var fyrir það fyrsta alveg föst í Le Creuset en gat ekki réttlæt kaup á potti fyirr 30-40 þúsund. Í öðru lagi veit ég ekki hvaða stærð myndi henta best fyrir mína 4ja manna fjölskyldu og mögulega matarboð með 6-8 manns?

    Þegar ég loksins eignast svona pott, þá verður þetta fyrsta uppskriftin til að prófa!

      1. Takk fyrir upplýsingarnar, Svava.

        Ég gerði verðkönnun en þessir pottar fást einnig í Fjarðarkaupum.

        3,6 L og 3,8 L eru til í Fjarðarkaupum, rétt eins og í Hagkaup, en eru 4-5 þúsund kr. ódýrari þar. Stærri gerðir, eins og 5,8 L og 6,3 L fást í Hagkaup líka.

        En hvað sem því líður þá ætla ég að prófa þessa tegund þar sem hún er umtalsvert ódýrari en Le Creuset sem ég er ekki alveg tilbúin að fjárfesta í.

    1. Æ, fyrirgefðu hvað ég svara seint. Þetta hefur eitthvað farið framhjá mér. Ég held að potturinn minn sé næst stærsta eða stærsta týpani. Var að skoða hann en það stendur ekki á honum! Ef ég man rétt þá kostaði hann um 20 þúsund. Er svakalega ánægð með hann.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s