Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa kannski séð að ég fór í smá frí til Parísar. Ég hef legið yfir veitingastöðum og var búin að bóka borð fyrir öll kvöldin áður en við fórum út. Þar sem ég veit að margir voru ánægðir með veitingastaðaábendingarnar frá Kaupmannahafnarferðinni ætla ég að taka aftur saman lista yfir þá veitingastaði sem við borðuðum á og vorum ánægð með.
Við flugum með morgunflugi til Parísar eftir aðeins tveggja tíma svefn og vorum því ekki líkleg til stórverka fyrsta daginn. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu fengum við okkur göngutúr og settumst inn á eitt elsta kaffihús Parísar, Cafe de Flora. Þar er gaman að sitja og fylgjast með mannlífinu, fá sér hvítvín og pipraðar kartöfluflögur.
Um kvöldið áttum við bókað borð á Brasserie LIPP, sem er kannski þekktastur fyrir nautasteikina og bernasie sósuna sína, sem og að Hemmingway var fastagestur þar. Við fengum okkur naut og bernaise sem var alveg hreint ólýsanlega gott. Sjarmerandi staður og góður matur.
Í hádeginu daginn eftir áttum við bókað borð á L´Avenue. Þar hefði ég getað eytt öllum deginum! Við fengum okkur hvítvín, snigla og reyktan lax með blinis, brjálæðislega gott. Þarna er hægt að sitja endalaust og fylgjast með fólkinu í kring. Þú gætir jafnvel rekist á stjörnur á borð við Rihanna, Justin Bieber, Kim Kardashian og Kanye West.
Um kvöldið borðuðum við á Hotel Costes. Maturinn var æðislegur og umhverfið ekki síðra. Tælenskar vorrúllur í forrétt, humar og nautakjöt í aðalrétt og marangebomba og sorbet í eftirrétt. Kampavín í fordrykk og hvítvín með matnum. Fólkið á næsta borði var skemmtilegt og bauð okkur upp á freyðivín og skál eftir matinn. Frábært kvöld í alla staði.
Við byrjuðum laugardaginn á morgunverði á Buvette, en staðurinn er einnig í New York. Við pöntuðum okkur croque monsieur sem var mjög gott, en ég horfði girndaraugum á avókadóbrauðið og vöfflupönnukökuna með beikoni og hlynsýrópi sem fólkið á næsta borði fékk sér. Það mun ég panta næst.
Eftir að hafa rölt um stræti Parísar settumst við aftur inn á Hotel Costes, í þetta sinn á barinn. Mojito og franskar er kannski ekki hefðbundið snarl en rann vel niður. Notalegur bar með svoooo þægilegum sætum, kannski af því að þreytan var farin að segja til sín…
Pershing Hall varð fyrir valinu um kvöldið og gaf Hotel Costes ekkert eftir. Við pöntuðum míníborgarar með stökku andarkjöti og tælensku salati í forrétt, angus naut í teriyaki og kartöflumús og pad thai með humri í aðalrétt og í eftirrétt deildum við súkkulaðikökusneið. Bellini í fordrykk og hvítvín með matnum. Dásamlegt í alla staði!
Sunnudagurinn hófst á Le Pain Quotidien, þar sem allt er lífrænt ræktað og gott. Ég fékk mér avokadóbrauð og súkkulaðicrossant. Frábær byrjun á deginum.
Um kvöldið fórum við á Ralph Laurent veitingastaðinn, Ralph´s. Þar fengum við okkur hamborgara og rauðvín í æðislega fallegu umhverfi og eftirrétta þrennu sem setti punktinn yfir i-ið. Þessi veitingastaður kom einna mest á óvart, svo dásamlega fallegur og sjarmerandi.
Á mánudagskvöldinu vorum við búin að bóka borð á Chez George. Staðurinn var í uppáhaldi hjá Juliu Child þegar hún bjó í París og hefur haldist óbreyttur í útliti síðan þá. Bon Appetit setur Chez George á lista yfir “ 5 must visit“ veitingastaði í París og lýsir staðnum sem einn af best varðveittustu bistróstöðum borgarinnar. Staðurinn er alltaf þétt setinn og eftir að hafa hlustað á fólkið á næsta borði dásama matinn sinn gat ég ekki setið á mér og spurði hvað þau höfðu pantað. Þau sögðust þá hafa pantað það sama og fólkið á næsta borði því þau höfðu að hrósað réttinum í bak og fyrir, nautafilé í sinneps rjóma og koníakssósu. Rétturinn er víst sá vinsælasti á staðnum og var meiriháttar góður. Eftirrétturinn var ekki síðri, baðaður upp úr súkkulaðisósu.
Á milli þess sem við röltum um stræti Parísar settumst við reglulega niður í drykk og hressingu. Við fórum á Ladurée sem væri synd að láta framhjá sér fara. Bæði fórum við á kaffihúsið og fengum okkur ostaköku og heitt súkkulaði/kaffi og á barinn í makkarónur og freyðivín. Sjarmerandi staðir og dásamlegir í alla staði.
Það má ekki fara til Parísar án þess að setjast inn á gott Creperie. Ég var ekki með neinn valkvíða þar, crepes með súkkulaðisósu húsins, por favor! Sjúklega gott.
Síðan rann einn og annar drykkur niður á milli búða og óhætt að segja að það væsti ekki um okkur.
Hótelið sem við gistum á heitir Le Cinq Codet. Ég hef varla sofið í betra rúmi og mig langaði mest til að taka rúmið, sængina og koddana með mér heim. Síðan þótti mér notalegt að það var komið með súkkulaði á hverju kvöldi upp á herbergi til okkar og á hverjum degi fengum við hreina sloppa og inniskó. Það má vel venjast slíku, sérstaklega kvöldsúkkulaðinu…
Sæl, Hvernig pantaðiru borð á Chez Georges, það er ekki hægt að panta á netinu er það nokkuð?
Mig minnir að við höfum hringt þangað til að panta borð. Lentum í því með nokkra staði að þurfa að hringja.
Sent from my iPhone
>