Ef þetta veður er ekki kjörið til þess að dunda sér í eldhúsinu þá veit ég ekki hvað. Síðan er jú líka svo brjálæðislega notalegt að setjast niður með nýbakað kvöldkaffi þegar rigningin ber rúðurnar. Ég bakaði um daginn hafrastykki sem strákarnir mínir elskuðu og mig grunar að þeir hafi borðað þau í öll mál daginn eftir því þau voru búin þegar ég kom heim úr vinnunni.
Uppskriftin kemur frá Ree Drummond sem er kannski betur þekkt sem The Pioneer Woman. Ég á nokkrar af matreiðslubókunum hennar og get lofað að uppskriftirnar klikka aldrei! Þessi uppskrift var engin undantekning. Hafrastykkin minna óneytanlega á hjónabandssælu og kannski helsti munurinn sá að það er jarðaberjasulta í þeim. Skemmtileg tilbreyting sem vert er að prófa!
Hafrastykki með jarðaberjasultu – uppskrift frá The pioneer woman
- 200 g smjör
- 250 g hveiti
- 140 g haframjöl
- 200 g púðursykur
- 1 tsk lyftiduft
- ¼ salt
- 1 krukka St. Dalfour jarðaberjasulta (284 g)
Hitið ofninn í 175° og smyrjið (eða klæðið með smjörpappír) form sem er um 22 x 33 cm að stærð.
Blandið saman hveiti, haframjöli, púðursykri, lyftidufti og salti. Skerið smjörið í bita og blandið saman við þurrefnin þannig að úr verði gróf mylsna. Setjið helminginn af mylsnunni í formið og þrýstið henni í botninn á því. Setjið sultuna yfir. Setjið seinni helminginn af mylsnunni yfir og þrýstið aðeins yfir hana.
Bakið í 35-40 mínútur. Látið kólna í forminu og skerið síðan í bita.