Ég hef verið óvenju dugleg að elda grænmetisrétti upp á síðkastið, stráknum til mikillar mæðu. Þeir eru búnir að fá sig fullsadda af grænmetissælunni. Um daginn ætlaði ég að hafa þennan karrýrétt í kvöldmat en þeir mótmæltu svo harðlega að ég snarskipti um skoðun og hitaði kjötbollur sem ég átti í frystinum. Daginn eftir voru þeir ekki í mat og þá nýtti ég tækifærið og eldaði karrýréttinn. Þar sem uppskriftin er ágætlega stór og við vorum bara tvö í mat, varð góður afgangur af réttinum. Ég skipti því niður á nokkur nestisbox sem fóru í frysti og hafa komið sér vel sem nesti í vinnuna.
Ég bar réttinn fram með nanbrauði og ristuðum kasjúhnetum en þegar ég hef borðað hann í vinnunni hef ég bara tekið súrdeigsbrauðsneið með mér (ég á það oftast niðurskorið í frystinum). Ég kaupi súrdeigsbrauðið í Ikea (það er bæði gott og á góðu verði), sker niður í sneiðar þegar ég kem heim og set beint í frysti. Um helgar þykir mér gott að rista brauðið og setja stappað avokadó, sítrónusafa, maldonsalt og chili explosion yfir. Svo gott!
Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum (breytt uppskrift úr bókinni Nyfiken Grön)
- 1 laukur
- 3 hvítlauksrif
- 1 sæt kartafla
- 1/2 msk karrý
- 2 dl rauðar linsubaunir
- 2 dósir kókosmjólk (400 ml. hvor)
- 2 grænmetisteningar
- 3-5 dl vatn
- 1 lítill blómkálshaus
- steinselja eða kóriander (má sleppa)
- salt og pipar
- þurrristaðar kasjúhnetur til að setja yfir réttinn (má sleppa)
Afhýðið of hakkið lauk, hvítlauk og sætu kartöfluna. Mýkið í olíu ásamt karrý og linsubaunum í rúmgóðum potti. Hrærið vel í pottinum á meðan svo ekkert brennið við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir og bætið grænmetisteningunum saman við. Látið sjóða undir loki í 10 mínútur. Skerið blómkálið í bita og bætið í pottinn. Látið sjóða áfram í um 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram.
Hve mikið karrý?
Æ, klaufaskapurinn í mér! Það á að vera 1/2 msk karrý. Ég er búin að bæta því í uppskriftina. Takk fyrir ábendinguna 🙂
Sæl. Gerði þennan rétt í kvöld. Bætti reyndar í kjúllabitum því mínir menn vilja kjöt. Mjög gott. Bakaði svo nan brauð með og gerði hvítlaukssmjör. Algjör veisla. Takk fyrir frábæra uppskrift sem verður oft á boðstólum. Takk, takk