Síðasti dagurinn í páskafríinu

 

Gleðilega páska! Ég vona að þið séuð búin að eiga gott páskafrí. Veðrið hefur jú leikið við okkur hér á höfuðborgarsvæðinu og undir lokin var ég næstum farin að óska eftir slagveðri svo ég gæti eytt deginum í sófanum án þess að fá samviskubit. Ég get nú ekki sagt að við höfum verið dugleg í útivistinni þrátt fyrir veðurblíðuna en ég dreif mig út og þreif gluggana hér heima og svo gengum við einn daginn hringinn í kringum Hvaleyrarvatn og enduðum ferðina á Brikk.

Við byrjuðum páskafríið á að grilla okkur hamborgara. Mér þykja hamborgarar svo góðir en elda þá sárasjaldan. Þessir voru eins einfaldir og hægt er að hafa þá en góðir engu að síður. Ostur, kál, laukur og margar sósur til að velja á milli. Gott!

Krakkarnir hafa verið að koma með páskaegg heim vikurnar fyrir páska  og síðan fékk ég eitt frá vinnunni. Ég ákvað því að kaupa ekki fleiri páskaegg (í fyrra voru þau svo mörg að við vorum borðandi þau langt fram á vor) heldur gaf krökkunum frekar páskagjafir. Malín fékk bkr brúsa og tilheyrandi klakabox sem ég vissi að hana langaði í (hún drekkur vatn með öllu og er alltaf í ræktinni, þannig að brúsinn nýtist vel) og strákarnir fengu Playstation heyrnatól sem hefðu varla getað vakið meiri lukku. Þeir eru með tvær tölvur hér heima og geta núna talað á milli.

Ég eyddi mörgum stundum í horninu á sófanum yfir páskana, ýmist með prjónana eða bók og kaffibolla. Fyrir páskafríið fyllti ég vel á kaffibyrgðirnar og taldi mig ekki þurfa að fara í Nespressobúðina næstu vikurnar. Þar hafði ég nú heldur betur rangt fyrir mér…

Ég bakaði pizzasnúða á skírdag og flýtti mér að setja helminginn í frysti áður en þeir kláruðust. Ég sé fyrir mér að krakkarnir geti fengið sér þá þegar þau koma heim úr skólanum.  Á myndinni sést kannski að það eru tvenns konar form á snúðunum, þ.e. sumir eru hærri en aðrir. Ég setti helminginn af snúðunum beint á bökunarpappír en hinn helminginn (þeir sem eru hærri) setti ég í bökunarform fyrir möffins (álform sem er fyrir nokkur möffins, ekki pappaform). Snúðarnir uðru háir og fínir við það.

Við fórum í mat til mömmu á föstudeginum langa. Mamma gerði súpu sem hún hefur gert áður og uppskriftin endaði þá hér á blogginu. Svo góð!! Í eftirrétt gerði hún Söru Bernharðs-köku sem hún bar fram með rjóma. Ég var gjörsamlega afvelta eftir þetta.

Ég bauð mömmu og bróður mínum í mat á páskadag í hefðbundið páskalæri. Lærið fór inn í ofn fyrir hádegi í lokuðum ofnpotti við 100° og fékk að dúsa þar yfir daginn. Gæti ekki verið þægilegra. Meðlætið var einfalt, brúnaðar kartöflur, sveppasósa, gular baunir og salat. Eftirréttinn mun ég setja hingað inn fljótlega, hann var æði!

Þessum síðasta frídegi verður eytt í afslöppun. Við hituðum okkur crossant í morgunmat (kaupi þau frosin) og í kvöld verður afgangur síðustu tveggja kvölda í kvöldmat. Nú tekur stutt vinnuvika við, bara fjórir dagar, áður en helgarfrí skellur á. Vorið er alltaf ljúft hvað frídaga varðar. Eftir veislumat síðustu daga langar mig mest til að taka grænmetisviku hér heima en veit að það fengi ekki góðar undirtektir hjá strákunum. Við sjáum hvað setur…

2 athugasemdir á “Síðasti dagurinn í páskafríinu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s