Mér þykir svo notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu og myndi helst vilja að það stæði alltaf nýbakað á fallegum kökudiski á eldhúsbekknum yfir helgarnar. Það er auðvitað fjarstæðukenndur draumur, bæði vegna þess að hér er ekki bakað um hverja helgi og líka vegna þess að við klárum oftast það sem bakað er samdægurs. Ef það sem kæmi úr ofninum stæði svo dögum skipti óhreyft á borðinu væri það einfaldlega vegna þess að okkur þætti það ekki gott.
Það eru til óteljandi uppskriftir af góðum súkkulaðikökum og margir halda sér við sína uppáhalds. Ég baka sjálf oftast sömu skúffukökuuppskriftinar (þessa hér eða þessa hér) en stundum bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Það gerði ég núna og með frábærum árangri. Kakan var mjúk, bragðgóð og æðisleg með glasi af ískaldri mjólk eða góðum kaffibolla. Klárlega kaka sem klárast samdægurs!
Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos – uppskrift frá Lindas bakskola
- 3 egg
- 3 dl sykur
- ½ dl kakó
- 3 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanillusykur
- 125 g smjör, brætt
- 1 dl mjólk
Glassúr
- 50 g smjör, brætt
- 2 msk kakó
- 2 tsk vanillusykur
- 3½ dl flórsykur
- 1 msk sterkt kaffi (meira eftir þörfum)
Skraut
- kókosmjöl
Hitið ofninn í 180°. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið kakói, hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið saman við eggjablönduna. Hræri bræddu smjöri og mjólk snögglega saman við deigið. Setjið deigið í smurt formkökuform (ég var með hringlaga). Bakið kökuna neðst í ofninum í um 35-40 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.
Glassúr: Hrærið öllum hráefnunum saman í skál. Þynnið með smá kaffi ef þörf er á. Setjið glassúrinn yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.
Gómsæt