Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos

Mér þykir svo notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu og myndi helst vilja að það stæði alltaf nýbakað á fallegum kökudiski á eldhúsbekknum yfir helgarnar. Það er auðvitað fjarstæðukenndur draumur, bæði vegna þess að hér er ekki bakað um hverja helgi og líka vegna þess að við klárum oftast það sem bakað er samdægurs. Ef það sem kæmi úr ofninum stæði svo dögum skipti óhreyft á borðinu væri það einfaldlega vegna þess að okkur þætti það ekki gott.

Það eru til óteljandi uppskriftir af góðum súkkulaðikökum og margir halda sér við sína uppáhalds. Ég baka sjálf oftast sömu skúffukökuuppskriftinar (þessa hér eða þessa hér) en stundum bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Það gerði ég núna og með frábærum árangri. Kakan var mjúk, bragðgóð og æðisleg með glasi af ískaldri mjólk eða góðum kaffibolla. Klárlega kaka sem klárast samdægurs!

Mjúk súkkulaðikaka með glassúr og kókos – uppskrift frá Lindas bakskola

 • 3 egg
 • 3 dl sykur
 • ½ dl kakó
 • 3 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 125 g smjör, brætt
 • 1 dl mjólk

Glassúr

 • 50 g smjör, brætt
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk vanillusykur
 • 3½ dl flórsykur
 • 1 msk sterkt kaffi (meira eftir þörfum)

Skraut

 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 180°. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan er orðin ljós og létt. Blandið kakói, hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið saman við eggjablönduna. Hræri bræddu smjöri og mjólk snögglega saman við deigið. Setjið deigið í smurt formkökuform (ég var með hringlaga). Bakið kökuna neðst í ofninum í um 35-40 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu.

Glassúr: Hrærið öllum hráefnunum saman í skál. Þynnið með smá kaffi ef þörf er á. Setjið glassúrinn yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Það fór eflaust ekki framhjá neinum að Justin Bieber hélt tónleika í Kórnum hér í Kópavogi fyrir helgi (ja, nema kannski honum sjálfum sem hélt að hann væri staddur í Reykjavík þegar hann heilsaði tónleikagestum). Þar sem við búum í Kórahverfinu og strákarnir ganga í unglingadeild Hörðuvallaskóla, sem er staðsett í sjálfum Kórnum, er óhætt að segja að við vorum með í stuðinu. Krakkarnir skelltu sér á tónleikana en ég hélt mér heima við og bakaði köku sem ég bauð upp á eftir tónleikana.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Og það var engin smá kaka! Mýksta súkkulaðikaka sem hægt er að hugsa sér með mjúku smjörkremi á milli botna. Krakkarnir voru að vonum alsælir þegar þeir komu heim og á móti þeim tók bökunarlykt og nýbökuð súkkulaðikaka stóð á borðinu. Þau voru fljót að skipta yfir í þægilegri föt og koma sér vel fyrir, enda nóg að ræða eftir að hafa loksins barið Bieberinn augum. Ljúfur endir á frábæru kvöldi hjá þeim.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Hershey´s súkkulaðikaka (jább, uppskriftin er aftan á kakóboxinu)

 • 2 bollar sykur
 • 1  3/4 bolli hveiti
 • 3/4 bolli kakó
 • 1 ½ tsk. lyftiduft
 • 1 ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 egg
 • 1 bolli mjólk
 • ½ bolli olía (ekki ólívuolía)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 bolli sjóðandi vatn

Hitið ofninn í 175°. Blandið sykri, hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti saman. Bætið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman við og hrærið vel. Hrærið sjóðandi vatni varlega saman við. Setjið deigið í 2 smurð bökunarform með lausum botni (ég var með þrjú minni form) og bakið í 25-30 mínútur. Látið botnana kólna í 15 mínútur í formunum, takið þá síðan úr formunum og látið þá kólna alveg áður en kremið er sett á.

Smjörkrem

 • 12 msk mjúkt smjör
 • 5 ½ bolli flórsykur
 • 1 bolli kakó
 • 2/3 bolli mjólk
 • 2 tsk vanilludropar
Setjið smjör í skál. Setjið um 1/3 af flórsykrinum saman við og hrærið vel. Setjið þá um 1/3 af mjólkinni og vanilludropana saman við og blandið vel. Þar á eftir er um 1/3 af kakóinu sett út í og blandað vel. Endurtakið þar til allt er komið í skálina. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir kökuna.

After Eight kaka

After Eight kaka

Ég á dásamlega uppskriftamöppu sem ég útbjó á Svíþjóðarárunum okkar. Á þeim tíma notaði ég netið nánast til þess eins að skoða uppskriftasíður og í hvert sinn sem ég datt niður á spennandi uppskrift þá setti ég hana í word-skjal. Það var ekkert skipulag á þessu hjá mér og uppskriftirnar voru ekki flokkaðar eftir einu né neinu. Ég setti bara alltaf nýjustu uppskriftina neðst og lét þar við sitja. Það er kannski það sem gerir möppuna svona sjarmerandi í mínum augum. Dag einn prentaði ég word-skjalið út, setti í möppu og var þar með komin með eina af mínum bestu uppskriftabókum.

After Eight kaka

Ég hef gert margar uppskriftir úr uppskriftamöppunni en þessi uppskrift er uppáhalds. Ég hef ofnotað hana í mörg ár og veit alltaf að hún á eftir að vekja lukku þegar ég ber hana fram. Ég hef gefið mörgum uppskriftina og verið beðin um að baka hana við ýmis tilefni og furða mig því á að hún hafi ekki ratað hingað á bloggið fyrr. Það var kannski alveg í stíl við það að ég gleymdi að mynda kökuna eftir að hún var skorin og get því ekki boðið upp á mynd þar sem sést inn í kökuna. Þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að hún er mjúk, örlítið blaut og fullkomlega dásamleg.

After Eight kaka

 • 250 g suðusúkkulaði
 • 175 g smjör
 • 2 tsk nescafé (instant kaffiduft)
 • 2 dl sykur
 • 4 egg
 • 1 ½ tsk vanillusykur
 • ½ tsk lyftiduft
 • ½ dl hveiti

Glassúr

 • 25 g smjör
 • 3/4 dl rjómi
 • 200 g After Eight

Hitið ofninn í 175° og smyrjið 24 cm form.

Brjótið súkkulaðið í minni bita og setjið í pott ásamt smjörinu. Bræðið við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.

Myljið kaffiduftið þannig að það verði fínmalað (ég nota mortél til verksins). Hrærið sykri, eggjum og kaffidufti í súkkulaðiblönduna og hrærið þar til deigið er slétt. Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman og sigtið ofan í súkkulaðideigið. Hrærið þar til deigið er slétt.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 55-60 mínútur.

Glassúr: Setjið smjör og rjóma í pott og hitið að suðu. Takið af hitanum og setjið After Eight plöturnar í pottinn. Hrærið þar til blandan er slétt.

Takið kökuna úr forminu og breiðið glassúrinn yfir. Berið kökuna fram með rjóma og jarðaberjum.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Það fjölgar jafnt og þétt í lesendahópnum hér á blogginu og í janúar voru heimsóknirnar rúmlega 200 þúsund. Ég býð nýja lesendur velkomna og þakka gömlum tryggðina. Ég get ekki þakkað nógu vel fyrir mig og mun seint geta lýst því hvað þið bæði gleðjið mig og gefið mér mikið. Takk og aftur takk ♥

Laugardagurinn var viðburðamikill og þeir sem fylgja mér á Instagram gátu fylgst með reglulegum uppfærslum frá júróvisjónkvöldinu okkar. Við byrjuðum daginn eldsnemma á fimleikamóti þar sem Gunnar nældi sér í gullverðlaun og enduðum daginn á sigri í söngvakeppninni. Eftir keppnina fögnuðum við með hópnum á Tapasbarnum og þegar leið á nóttina sóttum við Malínu og sofandi englakroppa úr pössun og bárum heim.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Gærdagurinn fór í það að slappa af og njóta þess að gera ekki neitt. Við vorum uppgefin og hvíldin var kærkomin. Við gerðum vel við okkur og fengum okkur súkkulaðiköku sem okkur þykir betri en allt gott.  Hún er mjúk, með miklu súkkulaðibragði og dásamleg í alla staði. Kakan geymist vel og helst mjúk þar alveg þar til hún er búin.

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

Mjúk amerísk súkkulaðikaka

 • 3 bollar hveiti
 • 2½ bolli sykur
 • 1 msk + 1 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 1 bolli kakó
 • 1 + 1/3 bolli canola olía (eða önnur bragðdauf olía)
 • 1 ½ bolli buttermilk (ég set 1 msk af sítrónusafa í bolla, fyllti hann svo af mjólk og læt blönduna standa í 10 mínútur (geri 1 ½ porsjón fyrir þessa uppskrift). Það má þó líka nota súrmjólk í staðinn fyrir buttermilk)
 • 3 stór egg
 • 1 ½ bolli nýuppáhellt sterkt kaffi
 • 1 tsk vanilludropar

Hitið ofninn í 175°. Smyrjið 2 bökunarform og setjið bökunarpappír í botninn á þeim.

Setjið hveiti, sykur, matarsóda, salt og kakó í hrærivélaskál og hrærið saman.  Með hrærivélina stillta á hægan hraða er olíu og buttermilk hrært saman við þurrefnin og þar á eftir eggjunum, einu í einu. Hrærið heitu kaffi í mjórri bunu saman við og að lokum vanilludropum. Hrærið saman þar til blandan er slétt og kekkjalaus. Skiptið deiginu í bökunarformin og bakið í 30-35 mínútur eða þar til prjóni stungið í kökurnar kemur með mjúkri mylsnu upp.

Súkkulaðikrem

 • 680 g suðusúkkulaði
 • 1 ½ bolli rjómi

Grófhakkið súkkulaðið og setjið ásamt rjómanum í skál yfir vatnsbaði. Leyfið súkkulaðinu að bráðna og hrærið síðan í blöndunni með píski. Látið kremið kólna áður en það er sett á kökuna (kremið þykkist við það).