Skúffukaka

SkúffukakaÍ gærkvöldi var árshátíð hjá Malínu og þar sem hún er í 10. bekk þá var þetta síðasta grunnskólaárshátíðin hennar.  Þegar ég kom heim úr vinnunni gekk ég inn í stórkostlegt ilmvatnsský og heimilið var undirlagt af stelpum í árshátíðarundirbúningi. Við eldhúsborðið var verið að græja neglur, inn á baði verið að krulla hár og það var sama hvert ég leit, alls staðar voru ummerki af því skemmtilega kvöldi sem var í vændum hjá þeim. Það var æðislegt að fylgjast með þeim, stemmningin í toppi og ekki annað hægt en að smitast af gleðinni. Eftir árshátíðina var hópurinn sóttur af limmósínu sem rúntaði um bæinn áður en þau enduðu ferðina hér heima.  Í morgun hélt gleðin áfram því Malín var búin að bjóða hópnum hingað heim í morgunverð fyrir skóla. Það var boðið upp á spæld egg, amerískar pönnukökur, snúða, vínarbrauð og ferska ávexti sem vinirnir sameinuðust í að kaupa og útbúa. Skemmtilegur endir á síðustu grunnskólaárshátíðinni. Í haust halda þau í sitthvora áttina og nýr kafli tekur við. Það eru spennandi tímar framundan hjá þeim.

SkúffukakaUm síðustu helgi bakaði ég æðislega skúffuköku og ákvað að drífa mig að setja inn uppskriftina ef þið eruð í bökunarhugleiðingum um helgina. Mér þykir skúffukaka alltaf standa fyrir sínu og vera ómótstæðileg með ískaldri mjólk. Þessi var mjög góð og ekki lengi að klárast.

SkúffukakaAð lokum langar mig til að benda ykkur á síðu á Facebook sem ég var að uppgötva, Njóttu. Þetta er lífsstílssíða fyrir þá sem kunna að meta það góða í lífinu! Á síðunni má finna uppskriftir, vínráðgjöf, hugmyndir af skreytingum fyrir matarboð, tilboð á veitingastöðum bæjarins og fl. sem nautnaseggir ættu ekki að láta framhjá sér fara. Það er flottur leikur í gangi á síðunni þar sem er hægt að vinna út að borða fyrir tvo á Lækjarbrekku ásamt veglegri gjafakörfu frá Njóttu. Þú getur tekið þátt í leiknum hér. Það verður dregin út vinningur strax á mánudaginn og síðan aftur 14. apríl. Það er um að gera að taka þátt!

Skúffukaka

  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 150 g smjör
  • 1 dl mjólk
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 msk vanillusykur
  • 4 msk kakó

Glassúr

  • 75 g smjör
  • 4 msk kakó
  • 4 dl flórsykur
  • 0,5 dl kalt kaffi
  • 1 msk vanillusykur
  • 2 dl kókosmjöl til að strá yfir

Bræðið smjör og látið aðeins kólna. Hrærið egg og sykur þar til blandan er ljós og létt. Hrærið hveiti, lyftidufti, kakó og vanillusykri saman við. Hærið að lokum smjöri og mjólk varlega í deigið (svo það skvettist ekki í allar áttir). Setjið deigið í smurt skúffukökuform (eða klæðið það með bökunarpappír) og bakið við 175° í um 30 mínútur.

Glassúr: Bræðið smjör í potti. Bætið kakó, flórsykri, kaffi og vanillusykri í pottinn og hrærið saman þar til blandan er slétt. Látið kökuna kólna áður en glasúrinn er settur yfir. Stráið kókosmjöli yfir strax eftir að glassúrinn hefur verið settur á kökuna.

4 athugasemdir á “Skúffukaka

  1. Langar svo að forvitnast hversu stórt form þú ert með undir kökuna því mér sýnist þetta ekki vera þessi venjulega skúffa sem er í ofnum :D?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s