Vikumatseðill

Vikumatseðill

Þá er enn ein vikan liðin og eins og svo oft áður nýti ég sunnudaginn í að skipuleggja komandi viku. Ég fer yfir það sem er að gerast hjá okkur í vikunni, naglalakka mig og geri vikumatseðil. Hápunktur líðandi viku var þegar við Gunnar gengum á Grimmansfell með vinnufélögum mínum. Gunnar er svo ótrúlega duglegur í fjallgöngunum og mér þykir svo gaman að hafa hann með. Þetta er ómetanleg gæðastund þó að mig langi oft á tíðum til að gefast upp og snúa við á miðri leið! Það er alltaf jafn góð tilfinning að ná toppnum og enn betri að klára göngurnar.

Vikumatseðill

Ég er stundum spurð af því hvort að ég fari eftir þeim matseðli sem ég birti hér á síðunni. Svarið er já og nei. Ég fer eftir honum að hluta til. Ef ég fylgdi þessum matseðlum þá kæmi aldrei neitt nýtt inn á bloggið! Ég geri því matseðil fyrir mig og geri síðan annan byggðann á mínum fyrir bloggið. Ég vona að þeir nýtist ykkur og létti undir í hversdagsamstrinu.

Ofnbakaður fiskur með paprikusósu

Mánudagur: Mig langar að byrja vikuna á ofnbökuðum fiski í paprikusósu.

Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Þriðjudagur: Pestóbaka með bökuðu grænmeti er bæði falleg og góð. Hún stendur vel ein og sér en gott salat fer vel með.

Mexíkósk kjötsúpa

Miðvikudagur: Mexíkósk kjötsúpa er fjölskylduvæn og tekur ekki langan tíma að útbúa. Ég ber hana fram með sýrðum rjóma og nachos eða góðu brauði (þar kemur New York Times-brauðið sterkt inn) og allir verða glaðir.

Einfaldur kvöldverður og dásamlegur eftirréttur

Fimmtudagur: Pylsur í þunnbrauðsvefju er bæði einfalt og gott. Heimagerður skyndibiti eins og þeir gerast bestir!

Satay kjúklingasalat

Föstudagur: Satay kjúklingasalat hefur lengi verið í uppáhaldi hjá krökkunum. Hollt, gott og æðislegt í alla staði.

Starbucks sítrónukaka

Með helgarkaffinu: Ég er veik fyrir sítrónukökum og finnst sítrónukakan frá Starbucks æðisleg.

Færðu inn athugasemd