Þar sem það er varla hundi út sigandi í þessu veðri þykir mér kjörið að taka daginn í að gera vikumatseðil og undirbúa vikuna. Vikuinnkaupin breytast alltaf aðeins hjá mér á haustin og sérstaklega núna þegar Malín tekur með sér nesti í skólann. Það er smá áskorun að finna hentugt nesti og við erum að prófa okkur áfram.
Á matseðlinum þessa vikuna veit ég að kjötbollurnar á þriðjudeginum og pylsugratínið á miðvikudeginum eru tilhlökkunarefni hjá krökkunum en hjá mér er það kjúklingasúpan á föstudeginum sem stendur upp úr. Hún er himnesk og ef þið hafið ekki prófað hana þá hvet ég ykkur til þess. Heimagerða Snickersið er síðan hápunktur vikunnar. Hamingjan hjálpi mér hvað það er gott. Það ætti að vera til á hverju heimili. Alltaf.
Mánudagur: Fiskréttur með blaðlauk og sveppum
Þriðjudagur: Ofnbakaðar kjötbollur
Miðvikudagur: Pylsugratín með kartöflumús
Fimmtudagur: Spaghetti carbonara
Föstudagur: Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum
Helgardekrið: Heimagert Snickers