Pasta með púrrulauk og beikoni

Það er búið að vera prógram á hverju kvöld þessa vikuna og við erum farin að þrá afslappað heimakvöld með góðum mat og félagsskap hvors annars. Í kvöld var Öggi á námskeiði yfir matartímann og ég var farinn á fund í fimleikunum hans Gunnars áður en hann kom heim. Mér þykir alltaf leiðinlegt þegar það vantar einhvern við matarborðið á kvöldin og sem betur fer þá gerist það sárasjaldan.

Í kvöld eldaði ég enn og aftur upp úr ársblaðinu hans Jamie Oliver. Það virðist vera hægt að elda hvaða rétt sem er úr þessu blaði, það er allt alveg æðislega gott. Þar sem lítill tími gafst fyrir matargerð í kvöld þá var ég búin að ákveða að elda pastarétt. Þegar ég var að byrja á matnum sá ég hins vegar að ég átti ekki nógu mikið af sýrðum rjóma í réttinn. Ég elska sýrðan rjóma og á hann alltaf til í ískápnum en núna var hann nánast búinn. Ég notaði það litla sem ég átti og setti svo rjóma í staðinn. Rétturinn varð svo góður að ég held að ég muni halda mig við hann þannig. Öggi borðaði þegar hann kom heim og það fyrsta sem hann sagði þegar ég kom heim var hversu rosalega góður pastaréttur þetta væri.

Pasta með púrrulauk og beikoni (ath uppskriftin er fyrir 2)

  • ólívuolía
  • smjör
  • 2 hvítlauksrif, skorin í fínar sneiðar
  • 400 g púrrulaukur, skorinn í 1 cm hringi
  • laufin af nokkrum timjanstöglum (ég notað þurrkað timjan)
  • 4-5 beikonsneiðar, hakkað
  • 1 msk gróft sinnep (ég notaði dijon sinnep og smá af chili sinnepi frá Niclas Vahé sem er í algjöru uppáhaldi)
  • 4 msk sýrður rjómi (ég var með ca 2 msk af sýrðum rjóma og ca 1 dl af rjóma)
  • 200 g gnocchi eða annað pasta
  • rifinn parmesan

Hitið olíu og smjör á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið hvítlaukinn á pönnuna og steikið í 1 mínútu, þar til hann er orðinn gylltur. Bætið púrrulauk og timjan á pönnuna og látið malla við vægan hita í 15 mínútur. Hrærið oft í pönnunni, laukurinn á að verða mjúkur og klístraður án þess að brúnast. Takið laukinn af pönnunni, setjið meiri olíu á hana og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Bætið sinnepi, smá vatni og lauknum á pönnuna og eldið í um mínútu. Setjið sýrða rjómann (og rjómann ef þið notið hann) á pönnuna og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita um stund.

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakningu. Hellið vökvanum af og bætið soðnu pastanu á pönnuna . Blandið pasta og lauk vel saman. Berið fram með ferskrifnum parmesan osti og pipar.

13 athugasemdir á “Pasta með púrrulauk og beikoni

  1. Gerði þennan rétt í gær, allt hráefnið var til í ísskápnum. Einfalt, þægilegt og mjög bragðgott pasta. Mér finnst þessi síða frábær og allt lítur svo girnilega út. Takk.

  2. ..og þennan hef ég prófað tvisvar og slegið í gegn meira að segja hjá eiginmanninum sem finnst pasta ekkert sérstakt……snilld.

  3. Ein spurning sem er kannski ekki beint viturleg en hvernig er best að hakka beikonið? Ég á ekki hakkara með hrærivélinni og þegar ég reyndi að nota töfrasprotann minn þá gekk það ekki.
    Kær kveðja,
    Gróa

      1. Sæl og takk fyrir svarið. Gerði þennan í gærkvöli en átti bara einn púrrulauk ca. 100 gr. Rétturinn var samt mjög góður og allir voru saddir, sáttir og glaðir. Takk enn og aftur fyrir þessa frábæru síðu em auðveldar mér lífið nánast í hverri viku.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s