Mæðradagsblómin frá Malínu standa einn og það kæmi mér ekki á óvart ef þau munu lifa út næstu viku líka. Ég elska afskorin blóm og vil helst alltaf vera með vönd hér heima. Með blómunum frá Malínu fylgdi sætur bangsi, meira krúttið sem hún er þessi skotta mín (sem varð 18 ára og sjálfráða á dögunum! Það sem tíminn líður…).
Í ljósi þess að í gær var Eurovision og í dag er hvítasunna grunar mig að margir geri vel við sig í mat þessa helgina. Hér er alla vega sá hátturinn á. Ég ætla því að halda mér við mánudagsfiskinn á morgun, en þar sem þá er annar í hvítasunnu ætla ég að draga fram góðu laxuppskriftina frá mömmu. Þar slæ ég tvær flugur í einu höggi, fæ bæði veislumat og fisk, og veit að allir verða ánægðir.
Vikumatseðill
Mánudagur: Lax með mango chutney og pistasíuhnetum
Þriðjudagur: Chili con carne
Miðvikudagur: Afgangur frá þriðjudeginum settur ofan á pizzabotn
Fimmtudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni
Föstudagur: Kjúklingur í ostrusósu
Með helgarkaffinu: Mjúk kaffikaka með súkkulaðibitum og kanil