Síðasta vika var annasöm og til að létta á heimilisstörfunum tók ég á það ráð að elda stóran skammt af chili con carne. Það tekur enga stund að elda þennan rétt, hráefnið er ódýrt og maturinn æðislega góður. Það er því mesta furða að ég skuli ekki elda hann oftar.
Uppskriftin er stór og dugði okkur fjölskyldunni vel í þrjár mismunandi máltíðir, hver annarri betri. Ef tíminn er með ykkur þá er ekki verra að láta réttinn sjóða við vægan hita í lengri tíma en uppskriftin segir til um. Smakkið síðan til og hann verður stórgóður.
Fyrsta kvöldið bar ég réttinn fram með sýrðum rjóma, New York times-brauði og heimagerðu hummus.
Kvöldið eftir hitaði ég réttinn upp og setti hann í tortillabrauð ásamt sýrðum rjóma, avokadó, rauðlauk, papriku, káli og fetaosti.
Þriðja kvöldið var afgangurinn settur á pizzur.
Chili con carne
- 1200 g nautahakk (2 bakkar)
- 3 msk olía
- 2½ tsk salt
- ½ tsk svartur pipar
- 1-2 tsk chilipipar
- 2 rauðlaukar
- 3 hvítlauskrif
- 3 dósir hakkaðir tómatar
- 1 box ferskir kirsuberjatómatar
- 1 dl chilisósa
- 2 tsk paprikukrydd
- 1 tsk sambal oelek (eða 2 tsk tabasco)
- ½ tsk kanil
- 1 tsk cummin
- 2 msk balsamik edik
- chili explosion
- 2-3 dósir baunir (ég notaði blöndu af nýrnabaunum, pintobaunum og cannellinibaunum)
Steikið nautahakkið og kryddið með salti, pipar og chilipipar. Setjið yfir í stóran pott.
Afhýðið og hakkið lauk og hvítlauk og steikið í olíu. Setjið í pottinn með nautahakkinu. Setjið hakkaða tómata, heila kirsuberjatómata og chilisósu í pottinn og hrærið öllu saman. Kryddið með paprikukryddi, kanil, cummin, chili explosion, balsamikediki og sambal oelek. Látið sjóða í 10 mínútur.
Hellið vökvanum af baununum og skolið þær í köldu vatni. Bætið baununum í pottinn og látið allt sjóða saman þar til baunirnar eru orðnar heitar.
Mjög girnilegt – en hvað er chili explotion ? 🙂
Sæl Karítas.
Chili explosion er krydd frá Santa María. Það fæst í flestum verslunum (ég er vön að kaupa það í Bónus) og er æðislega gott í hakkrétti. Hér getur þú séð mynd af þvi: https://ljufmeti.com/?s=chili+explosion&submit=Leita
sniðugt og mjög svo girnilegt Svava. En ertu ekki til í að gefa mér upp uppskrift af hummusinum þínum? Hef verið að leita að góðri uppskrift að heimagerðu hummus og ef þín uppskrift er í líkingu við allt ljúfmetið af síðunni þinni – giska ég á að það sé gott 🙂
Ég var einmitt að spá í því sama. Chili explotion. Langar agalega mikið að prófa þetta 🙂
Stella, ég er búin að svara því hér fyrir ofan 🙂
já …segji það sama hehe…hvað er chilli explotion ?? Og hvað þarf mikið af því í réttinn 🙂 ??
Greinilega vinsæl spurning 🙂 Ég er búin að svara því hér fyrir ofan, klikkaðu á linkinn þar til að sjá mynd af kryddinu. Kryddið kemur í kvörn og ég nota vel af því (það er alls ekki sterkt þó að nafnið gæti gefið annað til kynna), örugglega 7-10 snúninga úr kvörninni.
Grunar að Chili Explotion sé krydd frá Santa Maria…. fæst í bónus. Chili flögur…
Það er krydd, fæst held ég víðast hvar, m.a. í Bónus, er frá Santa Maria í svona kryddstaukum. Mjög fínt 🙂
Átt þú uppskriftir þar sem eru fá hráefni ?
sambal oelek sé að þetta er í þessari uppskrift hjá þér…hvað er sambal oelek?
Sambal oelek er chilimauk sem fæst t.d. í Bónus. Mér þykir mjög gott að nota það í hakkrétti. Hér getur þú séð hvernig það lítur út: https://ljufmeti.com/2012/10/22/sambal-oelek/
Þetta er að malla í pottinum hjá mér og ég get eiginlega ekki beðið eftir að hinn helmingurinn detti loksins inn úr dyrunum. Þarf allavega voðalega mikið að vera að smakka 🙂 Svakalega gott.
Þetta er mjög góð uppskrift af Chili Con Carne! Ég notaði smátt saxaðan ferskan rauðan chilipipar í staðinn fyrir chilikrydd og chili explosion, þetta var virkilega bragðgott. Best að kaupa samt „chili-sprengjuna“ næst þegar ég sé þetta krydd í Bónus, það er notað í margar uppskriftir hjá þér 😉
ég á nýrnabaunir og kjúklingabaunir, væri það ok? Eða kannski sleppa kjúklingabaunum bara??
Algerlega frábært, mæli með að strá ofan (þegar komið er á diskinn) cheddar osti, avokado og koriander….mmmmm þetta var rosalegt, takk fyrir frábæra uppskrift!
Chili sósan er það tómatsósan frá Hunts með chili í ?
Já, þessi í glerflöskunum 🙂
Sent from my iPhone
>