Síðasta vinnuvikan mín fyrir sumarfrí er framundan og eins og flesta sunnudaga sit ég við tölvuna og undirbý vikuna. Ég er með svo margar uppsafnaðar uppskriftir frá síðustu vikum sem eiga eftir að koma inn á bloggið og síðan er ég með mikið af uppskriftum sem mig langar að prófa. Listinn er langur! Það verður gaman að fara inn í sumarfríið með gott matarplan.
Lífið hefur snúist svolítið um HM upp á síðkastið. Í gær kom mamma til okkar í vöfflukaffi yfir Svíþjóð-England leiknum og um kvöldið hittumst við SSSskutlurnar og borðuðum saman yfir Rússland-Króatíu. Ég hef aldrei horft jafn mikið á fótbolta eins og undanfarnar vikur. Hef reyndar aldrei horft á fótbolta nema þegar Ísland er að spila landsleiki eða Gunnar að spila með Blikunum. Ég er þó búin að átta mig á að HM er fjör með góðum mat og spennandi leikjum. Hlakka mikið til leikjanna í vikunni og úrslitaleiksins um helgina!
Vikumatseðill
Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum
Þriðjudagur: Chili con carne
Miðvikudagur: Blómkálssúpa
Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu
Föstudagur: Japanskt kjúklingasalat
Með helgarkaffinu: Uppáhalds vöfflurnar