Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Þá er kominn nýr mánuður og ný vinnuvika. Sumarið (sem hefur þó varla verið neitt sumar hér á höfuðborgarsvæðinu) fer að verða hálfnað! Hér á heimilinu er enginn byrjaður í fríi en við strákarnir fórum í skemmtilega dagsferð á laugardaginn með vinnunni minni, þar sem við gengum upp á Stóra-Dímon og inn í Nauthúsagil og enduðum daginn síðan í grilli. Þetta er skemmtilegur hringur og passar vel fyrir dagsferðir, það er hægt að stoppa við Seljalandsfoss í leiðinni og enda daginn á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum á suðurlandinu.

Í gær var svo hefðbundinn sunnudagur með vikuinnkaupum og vikuundirbúningi. Ég setti myndir um helgina á Insta stories, meðal annars af gróðrastöð fyrir eldhúsið og hef sjaldan fengið jafn mörg skilaboð með fyrirspurnum. Ég held að ég sé búin að svara öllum en gróðrastöðin fæst í Eirberg (þar er útsala núna og 25% afsláttur af gróðrastöðum, þannig að það er um að gera að nýta sér það!) og ég bind miklar vonir við að geta nú loksins átt ferskar kryddjurtir í eldhúsinu. Hingað til hefur mér gengið illa að halda þeim á lífi en gróðrastöðin á að sjá um þetta fyrir mig. Hún veitir birtu og er með sjálvirku vökvunarkerfi. Ég sótti app í símann sem tengdist við gróðrastöðina, þar hakaði ég við þær kryddjurtir sem ég er með og þar með þarf ég varla að gera meira en að skipta um vatn annað slagið. Súpersniðugt!

Planið er síðan að planta þessum pipar í gróðrastöðina (þeir fást líka í Eirberg). Mér þykir það dálítið spennandi, það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu. Ég er með millistærðina af gróðrastöðinni, þessa hér og setti tvær tegundir af basiliku (venjulega og rauða) og rósmarín í hana. Það er æðisleg lykt í eldhúsinu!

Við vorum búin að ákveða að vera með pizzur í kvöldmatinn í gær, þar sem ég átti mikið af skinku og salami sem ég vildi fara að losna við. Það fór þó svo að þegar basilikan var komin í eldhúsið fékk ég óstjórnlega löngun í tómatapizzu. Úr varð æðisleg pizza sem ég ákvað að skrifa strax niður svo ég geti endurtekið hana. Botninn er úr smiðju Ebbu Guðnýjar en Gunnari þykir þessi pizzabotn vera sá allra besti og velur hann alltaf fram yfir hefðbundinn hveitibotn.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Botn:

 • 250 g lífrænt spelt
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
 • 1/2 – 1 tsk sjávarsalt
 • 1-2 tsk óreganó
 • 3 msk kaldpressuð ólífuolía (ég var með kaldpressaða hvítlauksólífuolíu)
 • 135-150 ml heitt vatn

Sjóðið vatnið. Blandið þurrefnum saman. Setjið olíu og vatn út í þurrefnin og hrærið saman í deig (tekur stutta stund, ekki hnoða of lengi). Þetta deig dugar í 4 þunnar pizzur og það er best að forbaka botnana í 4-5 mínútur við 180° (ég var þó með hærri hita á pönnupizzunni). Ég notaði helminginn af deiginu í pönnupizzuna.

Yfir pizzusuna:

 • 2 kúlur ferskur mozzarella
 • tómatar (ég var með litla)
 • 1/2 – 1 avokadó
 • handfylli af ferskri basiliku
 • grænt pestó
 • salt og pipar

Setjið helminginn af deiginu í 30 cm steypujárnspönnu (eða fletjið deigið út á ofnplötu) og bakið við 220° í 4-5 mínútur. Stráið þá rifnum ferskum mozzarella og tómötum yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Skerið avokadó í sneiðar og setjið yfir pizzuna ásamt ferskri basiliku og doppum af pestói. Sáldrið góðri hvítlauksolíu yfir, kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar og berið fram.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s