Við nýttum veðurblíðuna um daginn og grilluðum lambakjöt. Þegar ég var að velta meðlætinu með grillmatnum fyrir mér þá áttaði ég mig á því að það vantar upp á meðlætistillögur hér á blogginu. Meðlætið skiptir jú svo miklu máli, sérstaklega með grillkjöti. Nú stefni ég á að kippa þessu í lag og set strax inn sætar parmesankartöflur sem voru svoooo góðar. Mér þykja sætar kartöflur alltaf góðar en þessar eru extra góðar með parmesanhjúp og kryddum. Frábært meðlæti!
Ofnbakaðar parmesan sætar kartöflur
- 2 sætar kartöflur
- 2 tsk pressaður hvítlaukur
- 1 msk ólífuolía
- 2 msk smjör, brætt
- 4 msk rifinn parmesan ostur
- ½ tsk hvítlaukssalt
- ½ tsk ítölsk kryddblanda
Hitið ofninn í 200°.
Afhýðið kartöflurnar og skerið í 2 cm teninga. Setjið hvítlauk, olíu, smjör, hvítlaukssalt, parmesan og ítölsku kryddblönduna í plastpoka og blandið vel. Bætið sætu kartöflunum í pokann og hristið hann vel, þannig að kartöflurnar verði hjúpaðar af olíu/smjör/ostablöndunni. Setjið álpappír yfir ofnplötu, spreyið léttilega yfir með olíu og dreifið úr kartöflunum yfir. Bakið í um 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn.
Prufaði þessar í gær og þær eru mjög góðar. Fann þessa uppskrift með google. Kíkti áðan inná uppskriftirnar til að athuga hvort ég myndi finna uppskriftina aftur og sá ekki link á hana undir kartöflur.