Hér heima eyddum við allri síðustu viku í flensu, þar sem fjölskyldumeðlimir leystu hvort annað af í veikindunum. Ég tók síðust við keflinu og hef legið síðan ég kom heim úr vinnunni á föstudaginn. Nú vona ég að við náum þessu úr okkur í dag og að allir fari frískir inn í nýja viku.
Ég leitaði í gamlar uppskriftir fyrir matseðil vikunnar og fann ýmislegt sem ég var búin að gleyma. Ég man að pastarétturinn var mjög vinsæll hér heima á tímabili og það verður gaman að sjá hvort hann veki enn sömu lukku. Milljón dollara spaghettíið hefur alltaf verið vinsæl uppskrift á blogginu og virðist falla í kramið hjá öllum aldurshópum. Að lokum þá er himneska hnetusmjörskakan uppskrift sem má ekki gleymast, hún er allt of góð til þess!
Vikumatseðill
Mánudagur: Steiktur fiskur í kókoskarrý
Þriðjudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni
Miðvikudagur: Milljón dollara spaghetti
Fimmtudagur: Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu
Föstudagur: Pizzuídýfa
Með helgarkaffinu: Himnesk hnetusmjörskaka