Vikan sem leið og stórgóður fiskréttur

Ég má til með að þakka fyrir allar kveðjurnar sem þið hafið sent mér í tilefni af ársafmæli bloggsins. Þær hafa yljað mér inn að hjartarótum og fegrað lífið síðustu daga.

Eitt af því sem er skemmtilegt við það að blogga er að við tökum fullt af myndum. Þegar ég skoða í gegnum myndasafnið slær það mig hins vegar að meiri hluti þeirra er af mat. Það er eins og lífið snúist um mat hjá okkur. Við gerum þó ýmislegt fleira en að elda, mynda og borða mat. Í síðustu viku tókum við til dæmis upp á því, ásamt fjölmörgum öðrum Kópavogsbúum, að skella okkur á 17. júní hátíðarhöldin á Rútstúni.

17. júní

Það var napurt en félagsskapurinn var góður og við skemmtum okkur konunglega. Þegar við komum heim eldaði ég kjúklingasúpu sem við borðuðum undir sæng í sjónvarpssófanum. Notalegra gerist það varla.

17. júní

Á fimmtudaginn gengum við Öggi á Móskarðshnjúka ásamt gömlum og nýjum göngufélögum. Ég var staðráðin í að ganga á Móskarðshnjúka í sumar og þegar vinnufélagi minn stakk upp á göngunni vorum við Öggi því fljót að slá til.

Móskarðshnjúkar

Það var hvasst en fallegt veður, bratt á köflum og þreytan var farin að segja til sín þegar við nálguðumst toppinn.

Móskarðshnjúkar

Fallegust og duglegust í hópnum var Katla.

Móskarðshnjúkar

Útsýnið var stórbrotið og þreytan hvarf sem dögg fyrir sólu þegar upp á topp var komið. Þegar við komum heim fór ég í heita sturtu, náttslopp og fékk mér pulsu og súkkulaðirúsínur.  Öggi segir oft að ég kunni að gera vel við mig og þar hefur hann rétt fyrir sér. Það hefði fátt getað toppað þessa máltíð og náttsloppurinn gerði stundina örlítið notalegri.

Móskarðshnjúkar

Um helgina nutum við veðurblíðunnar og fórum á flakk um bæinn. Strákarnir skemmtu sér konunglega, eins og þeim er von og vísa.

Strákarnir

Við fórum líka á hjólabrettasvæðið en þeir eru að æfa sig á hjólabretti, mér til mikillar mæðu og taugaveiklunar.

Strákarnir

Eftir daginn þótti okkur gott að koma heim. Ég bjó til hamborgara sem að Öggi grillaði og úr varð dýrindis máltíð. Uppskriftin er væntanleg!

Grillaðir hamborgarar

Eftir þetta höfum við nánast bara myndað mat. Ég er því að hugsa um að bregða á það ráð að birta hér á blogginu svipmyndir frá hversdagslífinu oftar, jafnvel í lok hverrar viku, og vonast til að það verði til þess að við myndum það oftar. Að lokum gef ég uppskrift af stórgóðum fiski sem var á boðstólnum í vikunni. Uppskriftin kemur frá mömmu og er góð eftir því.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum (uppskrift frá mömmu)

 • 6-800 g ýsa eða þorskur
 • 1 góður blaðlaukur
 • 250 g sveppir (1 box)
 • 1 bolli rifinn ostur
 • 2,5 dl rjómi  eða matreiðslurjómi
 • 2 msk sveppasmurostur (má sleppa en ég bætti við og notaði 4-5 msk)
 • ½ – 1 sítróna
 • 1-1½ tsk aromat

Kreistið sítrónu yfir fiskflökin og kryddið með aromatkryddinu. Látið standa um stund.

Skerið fiskinn í bita og raðið í eldfast mót. Sneiðið blaðlaukinn og mýkið í olíu á pönnu, takið af og steikið sveppina í smá stund. Hellið þá rjómanum yfir, setjið rifna ostinn út í ásamt sveppasmurostinum og látið sjóða þar til hann er bráðinn. Bætið loks blaðlauknum á pönnuna og kryddið með aromatkryddi eftir smekk. Hellið þessu síðan yfir fiskinn og bakið við 190° í 15-20 mínútur.

Fiskréttur með blaðlauk og sveppum

11 athugasemdir á “Vikan sem leið og stórgóður fiskréttur

 1. Innilegaa til hamingju með 1. árs afmælið 🙂 Þú ert frábær og uppskriftirnar eftir því. Hef notað þær heilmijið og þær klikka ekki. Ég skil ekki að þú skulir skki vera þríbreið 🙂 Þið eruð yndisleg fjölsk. og gaman að fá að njóta 🙂

 2. Til hamingju með ársafmælið um daginn. Æðislega flott nýja logioð (ekki síst blokkin í bakgrunninum!;))
  Líst ótrúlega vel á að birta myndir úr hversdagslífinu, það er svo æðislega gaman að fylgjast með, svo ég tali nú ekki um allar girnilegu uppskriftirnar sem við erum aldeilis búnar að nýta okkur mæðgurnar 🙂

 3. Takk innilega fyrir frábærar uppskriftir, stórgóðar margar. En…..er ekki alveg bannað að nota Aromat? Eða bara allar vörur frá Knorr? Vegna MSG, eða eins og þeir segja „smagforstærker“. Það er frábær kraftur frá Sollu og Bong (í Bónus) og auðvitað Pottagaldrar.

 4. Kærar þakkir fyrir frábært blogg, ég skoða það daglega og hef prófað margar uppskriftir, hver annarri betri 🙂 Það væri fróðlegt að vita hvernig þú heldur þér í svona góðu formi miða við allar þessar kræsingar híhíhí 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s