Á þriðjudaginn er vöffludagurinn í Svíþjóð og ég verð seint þekkt fyrir að láta svo gott tilefni til að borða vöfflur framhjá mér fara. Mér þykja vöfflur æðislega góðar og baka þær oftar en góðu hófi gegnir. Uppskriftin sem ég nota oftast er hér. Þó að vöfflur með þeyttum rjóma og góðri sultu standa alltaf fyrir sínu þá getur verið gaman að breyta til og bera vöfflurnar t.d. fram með Nutella og bönunum eða sem eftirrétt með góðum ís, ferskum berjum og heitri súkkulaði- eða karamellusósu.
Það eru engar vöfflur á matseðli vikunnar en þar má þó finna eitt og annað gott. Ég fékk tölvupóst frá lesanda um daginn sem ætlaði að gera rjómalöguðu kjúklingasúpuna og mig hefur langað í súpuna síðan. Hún fór því beint á vikumatseðilinn. Eins þykir mér mexíkóska lasagnað hennar Nigellu æðislegt og góður endir á vinnuvikunni.
Mánudagur: Mér þykir fiskréttur með blaðlauk og sveppum passa vel eftir helgarmatinn.
Þriðjudagur: Skinku- og spergilkálsbaka er létt og góð máltíð sem ég ber fram með salati.
Miðvikudagur: Ljúffeng rjómalöguð kjúklingasúpa sem lífgar upp á hversdagsleikann.
Fimmtudagur: Þessi bragðgóði pylsupottréttur með beikoni og sweet chili rjómasósu gleður okkur alltaf.
Föstudagur: Þetta mexíkóska lasagna með avokadó-salsa er réttur sem ég hef oft gripið til þegar ég á von á gestum. Það er hægt að undirbúa hann deginum áður og þá er lítið mál að hóa í vini í mat eftir vinnu á föstudegi. Rétturinn vekur alltaf lukku.
Með helgarkaffinu: Bananakaka með Nutella-kremi kætir börn sem fullorðna og fer stórvel með helgarkaffinu.