Það er svo gaman að sjá hvernig hverfið fyllist af lífi í góðu veðri. Strákarnir mega varla vera að því að koma inn í kvöldmat og þegar þeir koma inn á kvöldin eru þeir með grasgrænu á hnjánum, skítugir upp fyrir haus og gleðin geislar af þeim. Það er mikið brallað, í gær var verið að smíða leynikofa og deginum áður voru þeir að veiða síli. Það er sjaldan dauð stund og þegar ég hafði orð á því einn daginn hvað þeir væru skítugir þá leit Jakob á mig og sagði; Mamma það er sumar, börn eiga þá að vera skítug. Svei mér ef það er ekki bara rétt hjá honum. Ég held að ég vilji miklu frekar fá þá heim með grasgrænu á hnjánum en eins og nýstraujað sellófan. Í gær var veðrið einmitt svo fallegt og krakkarnir voru úti að leika langt fram á kvöld. Mér fannst því alveg kjörið að dunda mér í eldhúsinu og vera með kvöldkaffi þegar þau kæmu inn.
Ég hef aldrei verið mikið fyrir Nutella en krakkarnir mínir elska það og þegar ég sá þessa uppskrift á Pinterest þá vissi ég strax að hún yrði vinsæl hjá þeim. Ég þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um hvað ég ætti að baka. Það er óhætt að segja að kakan hitti í mark. Ég smakkaði hana og verð að viðurkenna að banani og Nutella passa saman eins og hönd í hanska. Þessa á ég eftir að baka oftar.
Bananakaka
- 125 gr smjör við stofuhita
- 1 1/2 bolli sykur
- 2 1/2 bolli hveiti
- 1 1/2 tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 1 1/2 bolli stappaðir bananar (um 3 bananar)
- 2 egg
- 1 1/2 tsk vanilludropar
- 1/2 bolli nýmjólk
- 1/2 msk sítrónusafi
- 1/2 bolli Nutella
- 50 gr smjör
- 3 bollar flórsykur
- 2 góðar msk mjólk eða rjómi
Blandið saman nýmjólk og sítrónusafa og látið standa í 5 mínútur. Hrærið smjör og sykur vel saman í hrærivél. Bætið hveiti, salti, lyftidufti og matarsóda saman við smjör og sykurblönduna og hrærið þannig að allt blandist vel. Bætið næst bananastöppu, sítrónumjólk, eggjum og vanilludropum út í og hrærið áfram í tvær mínútur. Setjið deigið í smurt bökunarform (24 cm) og bakið við 180° í 60-70 mínútur eða þar til bökunarprjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna alveg áður en Nutella kremið er sett á.
Hrærið saman í hrærivél smjöri og Nutella. Bætið flórsykri saman við smátt og smátt. Endið á að setja mjólk eða rjóma út í og hrærið þar til kremið fær fallega áferð. Smyrjið kreminu á kökuna.
Berið kökuna fram með ískaldri mjólk.
Þurfum við ekki bara að fara í sambúð eða eitthvað!? ….. í dag eru við báðar að blogga um Nutella og banana! 🙂 Þessi er verulega girnileg, ég hefði átt að fá mér kvöldgöngu til þín!
Girnóó!! Annars er ég nýbúin að finna þessa síðu og gríðarlega er ég ánægð!:)
Frábært hvað uppskriftirnar streyma inn! Bookmarked;)
Ég var svo heppin að fá þessa með kaffinu hjá Svövu , kakan er dúnmjúk og æðislega góð sú allrabesta bananakaka sem ég hef smakkað.
Vá! Þessi rann sko ljúflega niður! Verður bökuð aftur og aftur 🙂 Kærar þakkir fyrir að deila með okkur gæðunum 🙂
Gaman að heyra Margrét – takk fyrir að segja mér frá ♥
Er í lagi að nota þroskaða banana? Orðnir nokkuð dökkir
Já, ekki spurning. Það er bara betra 🙂
Kv. Svava
En ætli sé gott að hafa tvo botna og setja krem á milli og ofaná? Eða er hún bara mjög góð svona? 🙂 er að fara að gera afmælistertu og ætla að hafa þessa. Var að pæla í bananakremi eða bananarjóma á milli? Svo nutella krem ofaná
Þetta er svo girnileg kaka! En á hvað á ofninn að vera stilltur?
Jeminn, ég hef gleymt að skrifa það! Ofninn á að vera 180° heitur 🙂
Hvað er 1 bolli ca margir ml/dl ? 🙂