Ég elska núðlusúpurnar á Núðluskálinni á Skólavörðustíg og þessi súpa minnir óneitanlega á þær. Uppskriftina fann ég í sænskri matreiðslubók sem heitir Kärlek, oliver och timjan. Þetta er gullfalleg bók eftir mægður og það er vel þess virði að eignast hana þó ekki væri nema bara til að skoða myndirnar því þær eru æðislegar. Uppskriftin er fyrir þrjá en við Öggi kláruðum súpuna upp til agna. Ég myndi því segja að hún sé fyrir tvo svanga.
- 200 gr eggnúðlur
- 4 skarlottulaukar
- 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
- 1/2 lime í þunnum sneiðum
- 2 kjúklingabringur
- 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
- 5 cm bútur af fersku engiferi
- 2 hvítlauksrif
- 1/2 – 1 ferskt rautt chili
- ca 2 msk rautt curry paste
- 4 dl kókosmjólk
- 4 dl vatn
- 1 kjúklingateningur
- 1-2 msk fiskisósa
- ferskt kóriander eða basilika
Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.
Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.
Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.
Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.
Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku og leggið rauðu chilistrimlana yfir.
Girnilegt hjá þér,best að skella hafragrautnum í sig svona í morgunsárið því garnirnar gaula eftir svona lesningu.En hvar var súpuprinsinn,lét hann ykkur komast upp með að klára súpuna.
Til hamingju með síðuna þína, höfum auðsýnilega sama matarsmekk. Elska uppskriftirnar þínar.
Mmmm hljómar svakalega vel. Mig langar að benda þér á að bragð á einungis að nota í eintölu, ef um bragðtegundir er að ræða. Hins vegar er vel við hæfi að nota brögð um kúnstir trúða svo dæmi sé tekið. Þakka annars frábærar uppskriftir, er gersamlega búin að liggja yfir þeim undanfarna viku og nú skal prófað! Verst að mér líst svo rosalega vel á allt hjá þér að það á eftir að verða erfitt að velja 😉