Laksa með kjúklingi

Ég elska núðlusúpurnar á Núðluskálinni á Skólavörðustíg og þessi súpa minnir óneitanlega á þær. Uppskriftina fann ég í sænskri matreiðslubók sem heitir Kärlek, oliver och timjan. Þetta er gullfalleg bók eftir mægður og það er vel þess virði að eignast hana þó ekki væri nema bara til að skoða myndirnar því þær eru æðislegar. Uppskriftin er fyrir þrjá en við Öggi kláruðum súpuna upp til agna. Ég myndi því segja að hún sé fyrir tvo svanga.

 • 200 gr eggnúðlur
 • 4 skarlottulaukar
 • 100 gr ferskar baunaspírur eða 50 gr ferskt spínat
 • 1/2 lime í þunnum sneiðum
 • 2 kjúklingabringur
 • 1 msk jarðhnetuolía eða önnur olía
 • 5 cm bútur af fersku engiferi
 • 2 hvítlauksrif
 • 1/2 – 1 ferskt rautt chili
 • ca 2 msk rautt curry paste
 • 4 dl kókosmjólk
 • 4 dl vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 1-2 msk fiskisósa
 • ferskt kóriander eða basilika

Takið hýðið af laukunum og skerið hann í þunnar sneiðar. Skolið baunaspírurnar eða spínatið vel. Skolið lime-ið og skerið í mjög þunnar sneiðar. Skrælið engiferið og skerið í örþunnar sneiðar. Takið hýðið af hvítlauknum og skerið í þunnar sneiðar. Fræhreinsið chili og skerið í þunna strimla. Skerið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar. Leggið þetta til hliðar á meðan súpan er undirbúin.

Leggið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni og sjóðið þar til þær eru tilbúnar (ca 5 mínútur). Látið renna af núðlunum í sigti og skiptið þeim í 3 skálar. Setjið laukinn, baunaspírurnar eða spínatið og limesneiðarnar ofan á.

Steikið hvítlaukinn í olíu, bætið engiferi og curry paste í pottinn. Það er mikilvægt að láta curry paste-ið hitna það mikið að það sjóði því þá fyrst kemur bragðið fram og það fer að ilma dásamlega í eldhúsinu.

Bætið núna kókosmjólkinni saman við í smáum skömmtum. Hrærið vel á milli þannig að curry paste-ið nái að blandast vel með kókosmjólkinni í hvert skipti. Bætið síðan vatninu út í og kjúklingakraftinum. Látið suðuna koma upp og bragðbætið með fiskisósunni. Leggið kjúklingabitana í og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til kjúlingabitarnir eru soðnir í gegn. Smakkið súpuna til og bætið ef til vill meiri fiskisósu út í og jafnvel smá sykri.

Bætið súpunni í skálarnar (ofan á núðlurnar, baunaspírurnar og limesneiðarnar) og látið hana standa í 2 mínútur til að brögðin nái að blandast. Skreytið með fersku kóriander eða basiliku  og leggið rauðu chilistrimlana yfir.

Sveppasúpa

Mér finnst eitthvað notalegt við súpur og hef yfirleitt súpu einu sinni í viku. Krakkarnir eru hrifin af þeim og þessi sveppasúpa er ein af þeirra uppáhalds. Áður en ég ber súpuna fram leyfi ég töfrasprotanum að mauka sveppina niður.  Það gerir súpuna ekki bara barnvænni heldur gefur henni dásamlegt sveppabragð og skemmtilega áferð.

 • 400 gr sveppir
 • 1 laukur (ég átti ekki lauk og notaði 4 skarlottulauka í staðinn)
 • 2 hvítlauksrif
 • olía
 • 2 dl rjómi
 • 6 dl vatn
 • 1 kjúklingatengingur
 • 1 grænmetisteningur
 • 3 dl mjólk

Sneiðið sveppina, afhýðið laukinn og hvítlauksrifin og hakkið smátt. Steikið sveppina og hökkuðu laukana í nokkrar mínútur í stórum potti í smá olíu. Bætið vatni, mjólk, rjóma og teningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í ca 15 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill smá salti út í eða hálfum grænmetisteningi. Setjið í lokin töfrasprota í pottinn og maukið sveppina niður þannig að súpan verður slétt. Það er líka hægt að nota matvinnsluvél ef töfrasprotinn er ekki fyrir hendi.

Með súpunni borðuðum við síðustu sneiðarnar af brauðinu góða sem ég skar í sneiðar, smurði með smjörva og Dijon sinnepi og reif Gouda og Cheddar ost yfir. Stakk svo í 200° heitan ofninn þar til osturinn var bráðnaður.