Marmara-bananakaka

Mér finnst ég hafa hrúgað ansi mörgum uppskriftum af bananakökum hingað inn og held nú áfram að bera í barmafullan lækinn. Það er bara ekki hægt að eiga of margar uppskriftir af bananakökum. Þær geymast vel en klárast þó alltaf strax. Ég baka því oftast tvær í einu því ég veit að fyrri kakan klárast samdægurs. Þessi uppskrift kemur frá Smitten Kitchen og er jafn dásamleg og allt sem kemur þaðan.

Marmara-bananakaka

 • 3 stórir þroskaðir bananar
 • 1/2 bolli (115 g) smjör, brætt
 • 3/4 bolli (145 g) ljós púðursykur
 • 1 stórt egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 • 1 bolli (130 g) plús 1/4 bolli (35 g) hveiti
 • 1/2 tsk kanill
 • 1/4 bolli (20 g) kakó
 • 3/4 bolli (130 g) súkkulaðidropar (eða hakkað súkkulaði)

Hitið ofn í 180° og smyrjið formkökuform.

Bræðið smjörið og stappið bananana saman við það. Hrærið púðursykri, eggi, vanilludropum, matarsóda og salti saman við. Bætið 1 bolla (130 g) af hveiti saman við og hrærið snögglega saman við deigið.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál (þarf ekki að vera nákvæmt mál en helmingurinn af deiginu er um 365 g, veltur þó á stærðinni á bönununum). Hrærið því sem eftir var af hveitinu  ásamt kanilnum saman við annan helming deigsins. Hrærið kakó og súkkulaðibitum saman við hinn helming deigsins.

Setjið stórar doppur af deigunum í botninn á forminu (það getur verið gott að miða við að setja einn lit í miðjuna á forminu og hinn sitt hvoru megin við). Setjið næsta lag af deigi þannig að ljóst deig fari yfir dökkt deig og öfugt. Endurtakið þar til allt deigið er komið í formið. Notið smjörhníf eða spaða til að blanda deiginu örlítið saman (það getur verið gott að miða við að gera áttur með hnífnum á tveim til þrem stöðum – passið að gera ekki of mikið!).

Bakið kökuna í 55-65 mínútur eða þar til prjónn sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp (það má þó gera ráð fyrir að það komi brætt súkkulaði á hann). Látið kökuna standa í forminu í smá stund áður en hún er tekin úr því.

Súkkulaði- og bananakaka

Súkkulaði- og bananakaka

Ég á alltaf erfitt með að henda mat en sá matur sem ég get alls ekki hent eru bananar. Þeir eru svo ljúffengir í brauðum og kökum, þó þeir séu orðnir ljótir og enginn hefur lyst á þeim, að ég enda alltaf á að baka úr þeim. Í langfelstum tilfellum enda gamlir bananar í þessu bananabrauði sem hverfur síðan undantekningarlaust á svipstundu ofan í krakkana, en annað slagið bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Þessa uppskrift sá ég hjá Smitten Kitchen og get lofað að hún er dásamlegri en orð fá lýst.

Í kökunni eru bæði kakó og súkkulaðibitar (tvöfalt súkkulaðibragð!!) sem blandast saman við bananabragðið og gerir kökuna gjörsamlega ómótstæðilega. Ég hakka súkkulaðið gróft því mér þykir gott að finna fyrir súkkulaðibitunum í kökunni.

Súkkulaði- og bananakaka

Kakan er í algjöru uppáhaldi hjá okkur þessa dagana og ég hef ekki tölu yfir hversu oft ég hef bakað hana á undanförnum vikum. Ég fann þó síðastliðið fimmtudagskvöld, þegar ég tók kökuna út úr ofninum kl. 11 um kvöldið og settist í sæluvímu niður með heita kökusneið og ískalt mjólkurglas og það var ó, svo dásamleg stund, að kannski væri þetta of langt gengið. Ég ætla því ekki að baka kökuna í komandi viku en þið getið gert það. Hér kemur uppskriftin…

Súkkulaði- og bananakaka

 • 3 mjög þroskaðir bananar
 • 115 g smjör, brætt
 • 145 g púðursykur
 • 1 stórt egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk kanil
 • 125 g hveiti
 • 50 g kakó
 • 170 g súkkulaði, grófhakkað (ég nota suðusúkkulaði)

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform.

Stappið banana í botni á stórri skál (ég nota hrærivélina). Hrærið bræddu smjöri saman við, síðan púðursykri, eggi og vanilludropum. Bætið matarsóda, salti, kanil, hveiti og kakó saman við og hrærið varlega þar til hefur blandast vel (passið að hræra ekki of lengi). Hrærið súkkulaðibitunum í deigið og setjið það í smurt formið. Bakið í 55-65 mínútur, eða þar til próni stungið í kökuna kemur deiglaus upp. Látið kökuna kólna í forminu í 10-15 mínútur.

Kakan geymist í 4 daga í plasti við stofuhita en ég get nánast fullyrt að hún mun aldrei endast svo lengi!

 

Bananakaka með Nutella kremi


Það er svo gaman að sjá hvernig hverfið fyllist af lífi í góðu veðri. Strákarnir mega varla vera að því að koma inn í kvöldmat og þegar þeir koma inn á kvöldin eru þeir með grasgrænu á hnjánum, skítugir upp fyrir haus og gleðin geislar af þeim. Það er mikið brallað, í gær var verið að smíða leynikofa og deginum áður voru þeir að veiða síli. Það er sjaldan dauð stund og þegar ég hafði orð á því einn daginn hvað þeir væru skítugir þá leit Jakob á mig og sagði; Mamma það er sumar, börn eiga þá að vera skítug. Svei mér ef það er ekki bara rétt hjá honum. Ég held að ég vilji miklu frekar fá þá heim með grasgrænu á hnjánum en eins og nýstraujað sellófan. Í gær var veðrið einmitt svo fallegt og krakkarnir voru úti að leika langt fram á kvöld. Mér fannst því alveg kjörið að dunda mér í eldhúsinu og vera með kvöldkaffi þegar þau kæmu inn.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir Nutella en krakkarnir mínir elska það og þegar ég sá þessa uppskrift á Pinterest þá vissi ég strax að hún yrði vinsæl hjá þeim. Ég þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um hvað ég ætti að baka. Það er óhætt að segja að kakan hitti í mark. Ég smakkaði hana og verð að viðurkenna að banani og Nutella passa saman eins og hönd í hanska. Þessa á ég eftir að baka oftar.

Bananakaka

 • 125 gr smjör við stofuhita
 • 1 1/2 bolli sykur
 • 2 1/2 bolli hveiti
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 1/2 bolli stappaðir bananar (um 3 bananar)
 • 2 egg
 • 1 1/2 tsk vanilludropar
 • 1/2 bolli nýmjólk
 • 1/2 msk sítrónusafi
Nutella krem
 • 1/2 bolli Nutella
 • 50 gr smjör
 • 3 bollar flórsykur
 • 2 góðar msk mjólk eða rjómi

Blandið saman nýmjólk og sítrónusafa og látið standa í 5 mínútur. Hrærið smjör og sykur vel saman í hrærivél. Bætið hveiti, salti, lyftidufti og matarsóda saman við smjör og sykurblönduna og hrærið þannig að allt blandist vel. Bætið næst bananastöppu, sítrónumjólk, eggjum og vanilludropum út í og hrærið áfram í tvær mínútur. Setjið deigið í smurt bökunarform (24 cm) og bakið við 180° í 60-70 mínútur eða þar til bökunarprjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna alveg áður en Nutella kremið er sett á.

Hrærið saman í hrærivél smjöri og Nutella. Bætið flórsykri saman við smátt og smátt. Endið á að setja mjólk eða rjóma út í og hrærið þar til kremið fær fallega áferð. Smyrjið kreminu á kökuna.

Berið kökuna fram með ískaldri mjólk.