Silvíukaka

Þetta er uppáhaldskaka Ögga og sænsku drottningunar, Silvíu. Ég skil það vel því kakan er æðislega góð. Hún er mjög fljótleg í bakstri og hráefnið það einfalt að ég á það alltaf til og hef ég því stundum bakað þessa köku í snatri þegar við höfum fengið gesti óvænt í kaffi.

Í dag byrjaði Öggi loksins í sumarfríi og mér fannst við verða að halda upp á það. Það var því alveg kjörið að baka Silvíuköku og þegar hann kom heim settumst við út á pall og fengum okkur kaffi.

Silvíukaka

 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 1 dl vatn
 • 2 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft

Glassúr

 • 75 gr smjör
 • 1 dl sykur (eða flórsykur)
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 eggjarauða
 • kókosmjöl

Hitið ofninn í 175°. Hrærið egg og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið vatninu saman við og hrærið snögglega. Bætið hveiti og lyftidufti út í og hrærið þar til deigið verður slétt. Setjið deigið í smurt bökunarform og bakið í ca 30 mínútur.

Á meðan kakan er í ofninum er glassúrinn gerður. Bræðið smjörið í litlum potti við vægan hita og hrærið sykri, vanillusykri og eggjarauðu saman við.

Þegar kakan er tilbúin er glassúrinn breiddur yfir kökuna og kókosmjöli stráð yfir.

Ljúffeng möndlukaka

Það eru ekki mörg ár síðan ég féll fyrir möndluköku en núna þykir mér hún svo góð og alveg ekta kaka til að hafa með kaffinu. Það tekur enga stund að baka hana og ekki skemmir fyrir hvað hún er falleg á borði.

Í gær bakaði ég möndluköku til að hafa með kaffinu. Í sumar hefur deginum seinkað hægt og sígandi hjá okkur og kaffitíminn í gær var ekki fyrr en um fimmleytið. Það var svo hlýtt á pallinum að við ákváðum að borða kökuna þar. Að drekka kaffið á pallinum slær öllu við í notalegheitum á sumrin og við borðum þar eins oft og við getum.  Ég veit þó ekki hvað nágranninn hefur haldið í gær því þegar við sátum og gæddum okkur á nýbakaðri möndlukökunni þá stóð hann og var að grilla kvöldmatinn. Við ákváðum því í snatri að við værum að borða mjög smart og lekkeran forrétt.

Uppskriftina fann ég í nýja veftímaritinu, Home & Delicius. Okkur fannst kakan æðislega góð og ég ætla ekki að segja ykkur hvað það er lítið eftir af henni.

Möndlukaka

 • 75 gr smjör
 • 1 dl sykur
 • 2 egg
 • 2 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1 tsk möndludropar
 • 1 dl mjólk

Hitið ofninn í 180°. Hrærið saman smjöri og sykri þar til létt og ljóst. Bætið eggjum saman við einu í einu og hrærið vel. Bætið þurrefnum saman við ásamt möndludropum og mjólk. Hrærið þar til deigið verður slétt og kekkjalaust. Setjið deigið í smurt bökunarform (ég notaði 22 cm form til að fá kökuna aðeins hærri) og bakið í 20 mínútur (ég hafði kökuna í 25 mínútur). Passið að baka hana ekki of lengi svo hún verði ekki þurr.

Glassúr

 • 3 dl flórsykur
 • 1 msk heitt vatn
 • 1 msk Ribena sólberjasafi

Blandið vatni og Ribena sólberjasafanum saman. Hrærið flórsykur og djúsblöndu saman þar til kekkjalaust. Mér fannst kremið of þykkt og bætti því smá meira af vatni saman við. Hellið kreminu yfir kökuna og berið fram.

Bananakaka með Nutella kremi


Það er svo gaman að sjá hvernig hverfið fyllist af lífi í góðu veðri. Strákarnir mega varla vera að því að koma inn í kvöldmat og þegar þeir koma inn á kvöldin eru þeir með grasgrænu á hnjánum, skítugir upp fyrir haus og gleðin geislar af þeim. Það er mikið brallað, í gær var verið að smíða leynikofa og deginum áður voru þeir að veiða síli. Það er sjaldan dauð stund og þegar ég hafði orð á því einn daginn hvað þeir væru skítugir þá leit Jakob á mig og sagði; Mamma það er sumar, börn eiga þá að vera skítug. Svei mér ef það er ekki bara rétt hjá honum. Ég held að ég vilji miklu frekar fá þá heim með grasgrænu á hnjánum en eins og nýstraujað sellófan. Í gær var veðrið einmitt svo fallegt og krakkarnir voru úti að leika langt fram á kvöld. Mér fannst því alveg kjörið að dunda mér í eldhúsinu og vera með kvöldkaffi þegar þau kæmu inn.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir Nutella en krakkarnir mínir elska það og þegar ég sá þessa uppskrift á Pinterest þá vissi ég strax að hún yrði vinsæl hjá þeim. Ég þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um hvað ég ætti að baka. Það er óhætt að segja að kakan hitti í mark. Ég smakkaði hana og verð að viðurkenna að banani og Nutella passa saman eins og hönd í hanska. Þessa á ég eftir að baka oftar.

Bananakaka

 • 125 gr smjör við stofuhita
 • 1 1/2 bolli sykur
 • 2 1/2 bolli hveiti
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 1 1/2 bolli stappaðir bananar (um 3 bananar)
 • 2 egg
 • 1 1/2 tsk vanilludropar
 • 1/2 bolli nýmjólk
 • 1/2 msk sítrónusafi
Nutella krem
 • 1/2 bolli Nutella
 • 50 gr smjör
 • 3 bollar flórsykur
 • 2 góðar msk mjólk eða rjómi

Blandið saman nýmjólk og sítrónusafa og látið standa í 5 mínútur. Hrærið smjör og sykur vel saman í hrærivél. Bætið hveiti, salti, lyftidufti og matarsóda saman við smjör og sykurblönduna og hrærið þannig að allt blandist vel. Bætið næst bananastöppu, sítrónumjólk, eggjum og vanilludropum út í og hrærið áfram í tvær mínútur. Setjið deigið í smurt bökunarform (24 cm) og bakið við 180° í 60-70 mínútur eða þar til bökunarprjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp. Látið kökuna kólna alveg áður en Nutella kremið er sett á.

Hrærið saman í hrærivél smjöri og Nutella. Bætið flórsykri saman við smátt og smátt. Endið á að setja mjólk eða rjóma út í og hrærið þar til kremið fær fallega áferð. Smyrjið kreminu á kökuna.

Berið kökuna fram með ískaldri mjólk.