Mexíkóskt lasagna með avókadó-salsa

Ég get ekki annað en glaðst yfir því hvað vikan byrjar skemmtilega. Ég byrjaði daginn á að lesa óvænta en mjög skemmtilega umfjöllun um bloggið mitt í Morgunblaðinu sem gladdi mig meira en orð fá lýst. Gleðin hélt áfram þegar ég keypti mér tæki í eldhúsið sem mig hefur lengi langað í og við enduðum daginn á því að fá góða vini í mat.

Ég ákvað að bjóða upp á mexíkóskt lasagna með avókadó-salsa, salati og nachos. Í eftirrétt gerði ég svo rabarbarapæ sem ég bar fram með vanilluís. Uppskriftin að matnum kemur úr smiðju Nigellu Lawson en mér þykir alltaf gaman að elda uppskriftir frá henni. Þetta lasagna var engin undantekning, það var bæði einfalt og fljótlegt en best af öllu var hvað það var æðislega gott.

Ég má til með að benda á að þessi réttur er kjörin fyrir saumaklúbba og veislur því það er alveg hægt að undirbúa hann deginum áður og jafnvel enn fyrr og geyma í frysti. Avókadó-salsað skal þó gera samdægurs.

Mexíkóskt lasagna (lítillega breytt uppskrift frá Nigella Kitchen)

 • 1 msk hvítlauksolía (ég notaði ólívuolíu og hvítlauksrif)
 • 1 laukur, skorinn smátt
 • 1 rauð paprika, skorin smátt
 • 2 græn chili, skorin smátt með fræjunum
 • 1 tsk maldon salt eða ½ tsk borðsalt
 • 2 msk fínhakkaðir stilkar af fersku kóriander
 • 2 dósir hakkaðir niðursoðnir tómatar
 • 1 msk tómatssósa
 • 1 bakki nautahakk (ca 500 gr.)

Fylling

 • 1 stór (430 gr) og 1 lítil (300 gr) dósir maís
 • 2 ½ bolli rifinn cheddar
 • 6-8 mjúkar tortilla kökur

Skerið lauk, papriku og chili smátt (fræin úr chiliunum eiga að vera með). Hitið hvítlauksolíu á pönnu og steikið grænmetið ásamt nautahakkinu. Saltið og steikið við vægan hita í 15 mínútur. Í lokin er söxuðum kórianderstilkum bætt á pönnuna. Bætið niðursoðnum tómötum og tómatsósu á pönnuna og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í ca 10 mínútur.

Hellið vökvanum frá maísbaununum og blandið þeim saman við rifinn cheddar ostinn (geymið smá af ostinum til að setja yfir réttinn).

Byrjið á að setja lasagnað saman með því að setja um þriðjung af kjötsósunni í botninn á eldföstu móti. Leggið 2 tortillakökur yfir þannig að þær hylji sósuna. Setjið næst þriðjung af fyllingunni yfir og fjórðung af því sem eftir er af kjötsósunni yfir fyllinguna. Leggið 2 tortillur yfir. Endurtakið með þriðjungi af fyllingunni og kjötsósu og öðru lagi af tortilla kökum. Endið á að setja restina af fyllingunni og kjötsósunni og að lokum rifinn cheddar ost yfir.

Bakið við 200° í ca 30 mínútur. Berið fram með avókadó-salsa, salati og nachos.

 • Það er hægt að undirbúa þetta lasagna deginum áður. Þá er kjötsósan kæld áður en lasagnað er sett saman. Leggið plastfilmu yfir og geymið í ískáp þar til það fer í ofninn. Bætið 5-10 mínútum við bökunartímann.
 • Það er hægt að frysta óeldað lasagnað í allt að 3 mánuði. Setjið tvöfalt lag af plastfilmu yfir og lag af álpappír. Afþýðið yfir nóttu í ískáp og bætið 5-10 mínútum við bökunartímann.

Avókadó-salsa

 • 2 avókadó
 • 1 skalottlaukur
 • 3 msk hakkað grænt jalepenos úr krukku (ég notaði 1 grænt chili án fræja)
 • salt
 • 1 msk limesafi
 • 1/4 bolli grófhakkað kóriander

Skerið avókadó í bita, hakkið lauk, jalepenos og grófhakkið kóriander. Setjið í skál ásamt salti og limesafa. Blandið öllu vel saman og smakkið til hvort þurfi meira salt áður en restinni af kóriander er bætt við.  Ég setti allt nema kóriander í skál og lét töfrasprotan mauka allt saman – fljótlegt og gott.

5 athugasemdir á “Mexíkóskt lasagna með avókadó-salsa

 1. hæ, þetta er orðið einn af uppáhalds hjá okkur fjölskyldunni!! ps. ég set nacho flögur + rifin ost efst áður en ég sting fatinu í ofninn og það er geggjað!!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s