Sloppy Joe

Sloppy Joe

Þegar við fórum heim frá Orlando langaði mig allra helst til að fylla ferðatöskurnar af matreiðslubókum. Ég hafði nokkrum dögum áður eytt góðum parti úr degi í Barnes & Nobles, í hættulega þægilegum hægindastól, og flett hverri bókinni á fætur annarri. Mig langaði í svo óteljandi margar, enda úrvalið æðislegt, en ég hef sem betur fer í gegnum tíðina áttað mig á því hvaða matreiðslubækur ég nota og hverjar enda upp í hillu. Uppskriftir með framandi hráefnum, flóknum eldunaraðferðum og engum myndum ná sjaldan til mín.

Sloppy Joe

Á endanum fengu þrjár matreiðslubækur að fylgja mér heim, tvær eftir Ree Drummond (sem er eflaust betur þekkt sem The Pioneer Woman) og síðan áhugaverð bók sem ég greip á hlaupum í Target eitt kvöldið, Fifty Shades of Chicken. Á kápunni stendur að bókin sé „The New York Times Bestseller“, hún hefur fengið góða dóma og uppskriftirnar lofa góðu. Það var þó ekki fyrr en ég var komin heim og fór að fletta bókinni betur að ég áttaði mig á að hún er skrifuð í anda Fifty Shades of Grey.  Uppskriftirnar hafa kjánalega klámfengna forsögu, inn á milli fallegra mynda af kjúklingaréttum má finna myndir af karlmanni sem er ýmist ber að ofan eða í svuntu einni klæða að stússast í eldhúsinu og uppskriftirnar heita nöfnum eins og Roast Me All Night Long Chicken og Happy Ending Chicken. Þetta er allt voða girnilegt og flott en ég veit ekki,  getur maður boðið tengdaforeldrum sínum í kjúkling sem heitir Sexy Sliders? Ég er alla vega orðin spennt að prófa uppskriftirnar og á eflaust eftir að hóa í saumaklúbbinn í Jerked-Around eða Please Don´t Stop Chicken fljótlega.

Sloppy Joe

Bækur Ree Drummond eru af öðrum toga enda mjög fjölskylduvænar og ég fæ ekki betur séð en að uppskriftirnar séu dásamlegar. Síðasta föstudagskvöld vígði ég aðra bókina þegar ég eldaði rétt sem heitir Sloppy Joe. Uppskriftin kom úr The Pioneer Woman Cooks, Food From my Frontier, og var stórkostlega góð. Svona matur hittir alltaf í mark hér heima. Það varð smá afgangur af hakkblöndunni sem var settur í frysti og mun fara ofan á pizzu næst þegar við höfum pizzukvöld.

Sloppy Joe

Sloppy Joe (lítillega breytt uppskrift frá The Pioneer Woman)

 • 600 g nautahakk
 • 1 græn paprika, skorin smátt
 • 1 laukur, skorinn smátt
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 bolli tómatsósa
 • 2/3 bolli vatn
 • 2 msk púðursykur
 • 1 tsk chiliduft
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk rauðar piparflögur (red pepper flakes)
 • Chili Explosion krydd (má sleppa en mér þykir það alltaf gefa hakkréttum svo gott bragð)
 • Worcestershire sósa eftir smekk
 • Tabasco sósa eftir smekk
 • Salt og pipar eftir smekk
 • 6 hamborgarabrauð

Brúnið nautahakkið á pönnu. Hellið fitunni af og bætið papriku og lauki á pönnuna. Steikið áfram og bætið hvítlauk á pönnuna. Hellið tómatsósu og vatni á pönnuna á hrærið öllu saman. Bætið púðursykri, chilidufti, sinnepsdufti, piparflögum, chili explosion, worcestershire sósu, tabasco sósu, salti og pipar á pönnuna. Hrærið öllu saman og látið sjóða undir loki við vægan hita í 20 mínútur.

Smyrjið hamborgarabrauðin með smjöri og steikið á pönnu (með smjörhliðina niður) þar til þau hafa fengið gyllta og stökka húð. Setjið nautahakksböndina á hamborgarabrauðin og berið fram með frönskum, salati, snakki eða því sem hugurinn girnist. Við settum ýmist sýrðan rjóma eða kokteilsósu á hamborgarabrauðin áður en nautahakksblandan fór á. Súpergott!

3 athugasemdir á “Sloppy Joe

 1. oooo Pioneer woman er snillingur ! hef prófað nokkrar uppskriftir frá henni og þær eru allar guðdómlegar. Það skemmir svo ekki fyrir hvað hún segir skemmtilega frá, ekkert ósvipað þér 😉
  Hlakka allavega til að sjá uppskriftir frá henni hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s