Mér áskotnaðist dásamlegt danskt kökublað frá vinkonu minni um daginn. Blaðið er æðislegt og ég á örugglega eftir að baka flest allt í því en það sem vakti fyrst áhuga minn voru uppskriftir sem danska bakaríið Lagkagehuset gaf. Ég hef aldrei farið í Lagkagehuset en systir mín sem býr í Kaupmannahöfn er tíður gestur þar og ég varð spennt að prófa uppskriftirnar.
Á föstudaginn bakaði ég fyrstu uppskriftina sem að bakaríið gaf, Drømkage. Í kökunni eru meðal annars 8 egg og fræ úr tveimur vanillustöngum og því kannski engin furða að hún hafi vakið lukku hjá bakariinu. Þrátt fyrir kókosmjöl í deiginu og kaffi í ofanbráðinni þá minnir kakan óneitanlega á gömlu góðu sjónvarpsköku okkar íslendinga. Þessi er bara aðeins þéttari í sér.
Öggi vill meina að þessi danska útgáfa sé með betri kökum sem hann hafi smakkað og dásamar hana við hvern bita. Ég tek ekki svo djúpt í árina en á þó líkt og hann erfitt með að standast kökuna því hún er stórgóð. Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar að prófa.
Drømmekage
- 375 g mjúkt smjör
- 375 g sykur
- 8 egg
- 475 g hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- fræ úr tveimur vanillustöngum
- 1,5 dl mjólk
- 100 g kókosmjöl
Ofanbráð
- 3/4 dl vatn
- 1 ½ tsk Nescafé
- 150 g smjör
- 150 g kókosmjöl
- 300 g púðursykur
- 75 g sýróp
Hitið ofninn í 180°. Hrærið smjör og sykur vel saman. Bætið eggjunum, einu í einu, saman við og hrærið í deiginu á meðan. Blandið hveiti, lyftidufti og fræjum úr vanillustöngum saman og hrærið í deigið. Hrærið að lokum mjólk og kókosmjöli í deigið.
Setjið deigið í bökunarpappírsklætt bökunarform sem er um 25 x 35 cm að stærð. Bakið kökuna í 35-40 mínútur.
Ofanbráð: Hitið vatnið í potti og leysið neskaffið upp í því. Bætið smjörinu saman við og látið það bráðna í blöndunni. Setjið restina af hráefnunum saman við og hrærið vel saman yfir lágum hita. Breiðið blöndunni yfir kökuna og bakið hana í 8 mínútur til viðbótar.
Væri til í að prófa þessa uppskrift. En var nokkuð uppskrift að jarðaberjaköku frá Lagkagehuset, þær eru líka mjög góðar 🙂
Þessi lítur vel út, elska danskar drommekager 🙂
Mér fannst uppskriftin það stór að ég notaði bara venjulega ofnskúffu. það var í lagi. Fyllingin er æði.
Dásamleg uppskrift Svava, eins og allar sem eru á síðunni þinni 🙂
Var að baka þessa í dag og váá… sjúklega góð. Hún var volg og drukkum við mjólk með. Algjör sælgæti 🙂