Skúffukaka með karamellukremi

Skúffukaka með karamellukremiÉg er orðin svolítið dauf í dálkinn eftir að hafa legið heila viku í flensu og óska þess heitast að hún núna fari og veri. Ég er þó öll að koma til og hef fulla trú á að ég verði stálslegin áður en helgin er á enda. Ég er viss um það.

Skúffukaka með karamellukremi

Þangað til ætla ég að halda áfram að dunda mér við að lesa matreiðslublöðin mín og gæla við tilhugsunina um hlýtt sumar með mörgum grillkvöldum og skemmtilegum ferðalögum. Ég var svo heppin að fá Bon Appétit blað inn um lúguna í vikunni (það sem sú áskrift hefur oft veitt mér mikla gleði og verið hverrar krónu virði) og er búin að lúslesa það spjaldanna á milli og merkja við þær uppskriftir sem ég ætla að prófa. Síðan ætla ég að halda áfram að gæða mér á skúffuköku sem ég bakaði og er æðisleg. Mér þykir góð tilbreyting að hafa karamellukrem á skúffukökunni og því verður seint neitað að karamella og súkkulaði fara stórvel saman. Kannski eitthvað til að baka með helgarkaffinu?

Skúffukaka með karamellukremiSkúffukaka með karamellukremi

Skúffukaka með karamellukremi (uppskrift úr Hembakat)

  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 dl púðursykur
  • 3 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 ½ dl mjólk
  • 150 g smjör, brætt
  • 4 dl hveiti

Karamelluglassúr:

  • 125 g smjör
  • 1 ½ dl sykur
  • 3/4 dl rjómi
  • 3/4 dl síróp
  • 1 tsk kakó

Yfir kökuna:

  • kókosmjöl

Hitið ofninn í175°. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Blandið saman lyftidufti, púðursykri, kakó og vanillusykri. Hrærið blöndunni út í eggjablönduna ásamt mjólk, bræddu smjöri og hveiti. Hrærið snögglega saman í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform (sirka 22 x 35 cm að stærð) og bakið í miðjum ofni í 25-30 mínútur.

Karamelluglassúr: Bræðið smjörið í potti. Hrærið sykri, rjóma, sírópi og kakói saman við og látið suðuna koma upp á meðan hrært er í pottinum. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í 18-20 mínútur.

Setjið karamelluglassúrinn yfir kökuna og stráið kókos yfir. Leyfið karamellunni að stífna aðeins áður en kakan er skorin í bita.

Skúffukaka

SkúffukakaÍ gærkvöldi var árshátíð hjá Malínu og þar sem hún er í 10. bekk þá var þetta síðasta grunnskólaárshátíðin hennar.  Þegar ég kom heim úr vinnunni gekk ég inn í stórkostlegt ilmvatnsský og heimilið var undirlagt af stelpum í árshátíðarundirbúningi. Við eldhúsborðið var verið að græja neglur, inn á baði verið að krulla hár og það var sama hvert ég leit, alls staðar voru ummerki af því skemmtilega kvöldi sem var í vændum hjá þeim. Það var æðislegt að fylgjast með þeim, stemmningin í toppi og ekki annað hægt en að smitast af gleðinni. Eftir árshátíðina var hópurinn sóttur af limmósínu sem rúntaði um bæinn áður en þau enduðu ferðina hér heima.  Í morgun hélt gleðin áfram því Malín var búin að bjóða hópnum hingað heim í morgunverð fyrir skóla. Það var boðið upp á spæld egg, amerískar pönnukökur, snúða, vínarbrauð og ferska ávexti sem vinirnir sameinuðust í að kaupa og útbúa. Skemmtilegur endir á síðustu grunnskólaárshátíðinni. Í haust halda þau í sitthvora áttina og nýr kafli tekur við. Það eru spennandi tímar framundan hjá þeim.

SkúffukakaUm síðustu helgi bakaði ég æðislega skúffuköku og ákvað að drífa mig að setja inn uppskriftina ef þið eruð í bökunarhugleiðingum um helgina. Mér þykir skúffukaka alltaf standa fyrir sínu og vera ómótstæðileg með ískaldri mjólk. Þessi var mjög góð og ekki lengi að klárast.

SkúffukakaAð lokum langar mig til að benda ykkur á síðu á Facebook sem ég var að uppgötva, Njóttu. Þetta er lífsstílssíða fyrir þá sem kunna að meta það góða í lífinu! Á síðunni má finna uppskriftir, vínráðgjöf, hugmyndir af skreytingum fyrir matarboð, tilboð á veitingastöðum bæjarins og fl. sem nautnaseggir ættu ekki að láta framhjá sér fara. Það er flottur leikur í gangi á síðunni þar sem er hægt að vinna út að borða fyrir tvo á Lækjarbrekku ásamt veglegri gjafakörfu frá Njóttu. Þú getur tekið þátt í leiknum hér. Það verður dregin út vinningur strax á mánudaginn og síðan aftur 14. apríl. Það er um að gera að taka þátt!

Skúffukaka

  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 150 g smjör
  • 1 dl mjólk
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 msk vanillusykur
  • 4 msk kakó

Glassúr

  • 75 g smjör
  • 4 msk kakó
  • 4 dl flórsykur
  • 0,5 dl kalt kaffi
  • 1 msk vanillusykur
  • 2 dl kókosmjöl til að strá yfir

Bræðið smjör og látið aðeins kólna. Hrærið egg og sykur þar til blandan er ljós og létt. Hrærið hveiti, lyftidufti, kakó og vanillusykri saman við. Hærið að lokum smjöri og mjólk varlega í deigið (svo það skvettist ekki í allar áttir). Setjið deigið í smurt skúffukökuform (eða klæðið það með bökunarpappír) og bakið við 175° í um 30 mínútur.

Glassúr: Bræðið smjör í potti. Bætið kakó, flórsykri, kaffi og vanillusykri í pottinn og hrærið saman þar til blandan er slétt. Látið kökuna kólna áður en glasúrinn er settur yfir. Stráið kókosmjöli yfir strax eftir að glassúrinn hefur verið settur á kökuna.

Einföld og góð skúffukaka

Ég kenni tengdamóður minni alfarið um að hafa ekki litið hingað inn í gær. Hún fór í frí til Svíþjóðar og kom heim í gær með fulla tösku af uppskriftarbókum og -blöðum handa mér. Ég vissi varla hvernig ég átti að hegða mér í gærkvöldi með allar þessar nýju bækur sem ég vildi lesa spjaldana á milli og prófa allt sem ég sá. Takk elsku Malín fyrir að vera alltaf svona yndisleg og góð við mig.

Föstudagskvöldið var nokkuð hefðbundið að öðru leiti. Ég eldaði þessa kjúklingasúpu og hún varð sérlega góð. Það er svo skrýtið að mér þykir hún aldrei verða eins. Ég hef eldað hana svo oft en veit aldrei hvernig hún endar. Hún er þó alltaf góð og hefur aldrei klikkað. Í gær setti ég smá karrý út í hana og chilisósu frá Felix sem mér þótti gera hana að spánýrri súpu. Eftir matinn settum við nammi í skál og horfðum á X-factor. Gleðin hélt síðan áfram þegar við uppgötvuðum að það var verið að sýna tónleika með Adele í norska sjónvarpinu. Allt kvöldið var ég þó að laumast í nýju matreiðslubækurnar og grípandi í prjónana þess á milli.

Ég er búin að eyða morgninum í að fletta uppskriftum og skrifa vikumatseðilinn. Áður en ég fer út í búð ætla ég að gefa uppskrift af þessari góðu skúffuköku sem ég baka svo oft og síðast núna í vikunni. Mikið þykir mér þessi kaka alltaf góð og með ískaldri mjólk er hún gjörsamlega ómótstæðileg.

Einföld og góð skúffukaka

  • 150 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk kakó
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið  og látið það kólna aðeins. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við eggin og sykurinn. Bætið smjörinu og mjólkinni saman við og blandið öllu vel saman. Setjið deigið í smurt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í ca 25 mínútur.

Glassúr

  • 75 g smjör
  • 2 msk kaffi
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 1/2 dl flórsykur

Bræðið smjörið og blandið hinum hráefnunum saman við þannig að allt bráðni saman. Breiðið glassúrnum yfir kökuna og stráið grófu kókosmjöli yfir.