Ég er orðin svolítið dauf í dálkinn eftir að hafa legið heila viku í flensu og óska þess heitast að hún núna fari og veri. Ég er þó öll að koma til og hef fulla trú á að ég verði stálslegin áður en helgin er á enda. Ég er viss um það.
Þangað til ætla ég að halda áfram að dunda mér við að lesa matreiðslublöðin mín og gæla við tilhugsunina um hlýtt sumar með mörgum grillkvöldum og skemmtilegum ferðalögum. Ég var svo heppin að fá Bon Appétit blað inn um lúguna í vikunni (það sem sú áskrift hefur oft veitt mér mikla gleði og verið hverrar krónu virði) og er búin að lúslesa það spjaldanna á milli og merkja við þær uppskriftir sem ég ætla að prófa. Síðan ætla ég að halda áfram að gæða mér á skúffuköku sem ég bakaði og er æðisleg. Mér þykir góð tilbreyting að hafa karamellukrem á skúffukökunni og því verður seint neitað að karamella og súkkulaði fara stórvel saman. Kannski eitthvað til að baka með helgarkaffinu?
Skúffukaka með karamellukremi (uppskrift úr Hembakat)
- 2 egg
- 2 dl sykur
- 2 tsk lyftiduft
- 1 dl púðursykur
- 3 msk kakó
- 2 tsk vanillusykur
- 1 ½ dl mjólk
- 150 g smjör, brætt
- 4 dl hveiti
Karamelluglassúr:
- 125 g smjör
- 1 ½ dl sykur
- 3/4 dl rjómi
- 3/4 dl síróp
- 1 tsk kakó
Yfir kökuna:
- kókosmjöl
Hitið ofninn í175°. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Blandið saman lyftidufti, púðursykri, kakó og vanillusykri. Hrærið blöndunni út í eggjablönduna ásamt mjólk, bræddu smjöri og hveiti. Hrærið snögglega saman í slétt deig. Setjið deigið í skúffukökuform (sirka 22 x 35 cm að stærð) og bakið í miðjum ofni í 25-30 mínútur.
Karamelluglassúr: Bræðið smjörið í potti. Hrærið sykri, rjóma, sírópi og kakói saman við og látið suðuna koma upp á meðan hrært er í pottinum. Lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í 18-20 mínútur.
Setjið karamelluglassúrinn yfir kökuna og stráið kókos yfir. Leyfið karamellunni að stífna aðeins áður en kakan er skorin í bita.
Ein athugasemd á “Skúffukaka með karamellukremi”