Ég las í morgunn að það væru minna en 100 dagar til jóla. Það þóttu mér góð tíðindi enda fyrir löngu farin að hlakka til jólanna og meira að segja hefur eitt og eitt jólalag heyrst hér á heimilinu upp á síðkastið (sem er allt of snemmt, ég veit!). En tíminn er fljótur að líða og eftir tvo mánuði verða aðventuljósin dregin fram, smákökurnar bakaðar og jólalögin fá að njóta sín. Það sem ég hlakka til!
Planið fyrir daginn var að fara í góðan göngutúr, gera vikuinnkaup, grilla kjúkling og fara í bíó en þegar ég var að borða morgunmatinn fékk ég tak í bakið sem virðist ekki ætla að gefa sig. Ég eyddi því deginum í að dunda mér við að gera vikumatseðil og plana komandi viku. Ísskápurinn er tómur og ég hef ekki farið út fyrir húsins dyr í allan dag en kjúklingurinn skal á grillið og vikumatseðillinn er klár!
Vikumatseðill
Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum
Þriðjudagur: Spaghetti bolognese
Miðvikudagur: Gúllassúpa með nautahakki
Fimmtudagur: Tortellini í pestósósu
Föstudagur: Kjúklingaborgari með alls konar góðgæti
Með helgarkaffinu: Skúffukaka