Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunu

Ég hef verið óvenju dugleg að elda grænmetisrétti upp á síðkastið, stráknum til mikillar mæðu. Þeir eru búnir að fá sig fullsadda af grænmetissælunni. Um daginn ætlaði ég að hafa þennan karrýrétt í kvöldmat en þeir mótmæltu svo harðlega að ég snarskipti um skoðun og hitaði kjötbollur sem ég átti í frystinum. Daginn eftir voru þeir ekki í mat og þá nýtti ég tækifærið og eldaði karrýréttinn. Þar sem uppskriftin er ágætlega stór og við vorum bara tvö í mat, varð góður afgangur af réttinum. Ég skipti því niður á nokkur nestisbox sem fóru í frysti og hafa komið sér vel sem nesti í vinnuna.

Ég bar réttinn fram með nanbrauði og ristuðum kasjúhnetum en þegar ég hef borðað hann í vinnunni hef ég bara tekið súrdeigsbrauðsneið með mér (ég á það oftast niðurskorið í frystinum). Ég kaupi súrdeigsbrauðið í Ikea (það er bæði gott og á góðu verði), sker niður í sneiðar þegar ég kem heim og set beint í frysti. Um helgar þykir mér gott að rista brauðið og setja stappað avokadó, sítrónusafa, maldonsalt og chili explosion yfir. Svo gott!

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum (breytt uppskrift úr bókinni Nyfiken Grön)

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla
  • 1/2 msk karrý
  • 2 dl rauðar linsubaunir
  • 2 dósir kókosmjólk (400 ml. hvor)
  • 2 grænmetisteningar
  • 3-5 dl vatn
  • 1 lítill blómkálshaus
  • steinselja eða kóriander (má sleppa)
  • salt og pipar
  • þurrristaðar kasjúhnetur til að setja yfir réttinn (má sleppa)

Afhýðið of hakkið lauk, hvítlauk og sætu kartöfluna. Mýkið í olíu ásamt karrý og linsubaunum í rúmgóðum potti. Hrærið vel í pottinum á meðan svo ekkert brennið við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir og bætið grænmetisteningunum saman við. Látið sjóða undir loki í 10 mínútur. Skerið blómkálið í bita og bætið í pottinn. Látið sjóða áfram í um 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram.

 

Brokkólí- og sveppabaka

Brokkólí- og sveppabaka

Ég er enn að reyna að vera með grænmetisrétt einu sinni í viku og það hefur gengið vonum framar. Það er svo mikið til að góðum grænmetiréttum og margir hverjir eru bæði fljótgerðir og æðislega góðir. Síðan eru þeir léttir og góðir í maga. Þessi baka er án bökubotns og það tekur því enga stund að útbúa hana. Það má síðan bera bökuna fram með góðu brauði til að gera hana að meiri máltíð.

Brokkolí- og sveppabaka

  • 250 g brokkoli
  • 150 g sveppir
  • 3 egg
  • 2 dl rjómi
  • 100 g philadelphia rjómaostur
  • 100 g kotasæla
  • 150 g fetaostur
  • basilika og pipar (gott að krydda líka með kryddi lífsins frá Pottagöldrum og paprikukryddi)
  • 2 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200° og smyrjið eldfast form. Setjið brokkólí og sveppi í botninn á forminu. Hrærið eggin með rjómanum, kryddið og bætið kotasælu og fetaosti saman við. Hellið blöndunni yfir og stráið rifnum osti yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Brokkólí- og sveppabakaBrokkólí- og sveppabakaBrokkólí- og sveppabaka