Hakkpanna með hvítkáli

Ég kíki stutt inn í kvöld þar sem ég er með saumaklúbb og stelpurnar eru væntanlegar á hverri stundu. Ég ætla að bjóða upp á gríska ofnréttinn og hvítlauksbrauð. Ég er síðan búin að gera tvær kökur í eftirrétt.

Í gær var í mörgu að snúast hér á heimilinu og ég náði aldrei að setja inn færslu. Ég eldaði kvöldmat sem krökkunum þótti svo góður að ég má til með að setja hann inn. Ég átti hvítkál sem var fyrir mér í ískápnum og ég vildi fara að losna við. Ég átti líka tæplega hálfa krukku af tómatþykkni  og rúmlega botnfylli af rifsberjasultu. Allt fékk þetta að fara á pönnuna ásamt kjötkrafti, soyasósu, salti  og pipar og úr varð stórfínn réttur.

Hakkpanna með hvítkáli

 • 1 bakki nautahakk
 • 1 bakki svínahakk
 • 1-2 laukar, skorinn fínt
 • ½ hvítkálshaus, skorinn nokkuð smátt
 • 4-5 msk tómatpuré
 • 3-4 msk rifsberjahlaup
 • 2 teningar kjötkraftur
 • soyasósa
 • salt og pipar

Steikið hvítkál og lauk við miðlungsháan hita upp úr vænni klípu af smjöri þar til það er orðið mjúkt og byrjað að glansa. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Setjið olíu á pönnuna og steikið hakkið. Bætið hvítkálinu og lauknum ásamt restinni af hráefnunum á pönnuna og látið malla um stund. Smakkið til með salti og pipar og bætið við tómatpuré, rifsberjahlaupi eða soyasósu eftir þörfum.

Það þarf enga sósu með þessu því það myndast sósa af soðinu. Ég sauð kartöflur og dró fram hrásalat og sultu til að hafa með. Krakkarnir elskuðu þetta.

Makkarónuskúffa Markoolio

Þegar við bjuggum í Svíþjóð var ég áskrifandi af sænska Séð og heyrt. Ég þóttist læra heilmikla sænsku af því að lesa blaðið og taldi áskriftina því nauðsynlega fyrir mig. Ég þakka blaðinu enn þann dag í dag fyrir sænskukunnáttu mína, mikið frekar en háskólanáminu sem ég stundaði, enda las ég blaðið bæði oftar og betur en námsbækurnar.

Á þessum tíma var söngvari og leikari að nafni Markoolio í miklu uppáhaldi hjá Malínu. Við fengum að hlusta á lögin hans daginn út og inn og þegar leikritið Kalli á þakinu var sett upp með Markoolio í aðalhlutverki þá kom ekkert annað til greina en að æða í leikhús til að bera goðið augum. Ég held að ég hafi aldrei séð jafn skemmtilega leiksýningu, enda smituð af gleðinni frá Malínu.

Á þessu Markoolio-tímabili Malínar var þáttur í Séð og heyrt þar sem fræga fólkið gaf uppáhalds uppskriftina sína. Þetta átti nú heldur betur við mig og það fyrsta sem ég gerði þegar blaðið kom í hús var að kíkja á uppskrift vikunnar. Það vildi síðan svo skemmtilega til að eina vikuna gaf Markoolio uppáhalds uppskriftina sína í Séð og heyrt, Makkarónuskúffu Markoolio. Þetta varð strax uppáhalds matur Malínar og ég eldaði hann lengi vel í hverri viku.

Þegar við fluttum aftur heim til Íslands féll þessi réttur í gleymsku og þegar ég ætlaði að fara að gera hann aftur þá var ég búin að gleyma uppskriftinni. Ég hef reglulega leitað að henni á netinu án árangurs en um daginn fann ég hana á gömlu bloggi sem Markoolio hafði haldið úti.

Malín varð svo ánægð þegar ég sagði henni að uppskriftin að makkarónuskúffu Markoolio væri fundin og beið spennt eftir að ég eldaði réttinn. Í kvöld lét ég verða af því og vakti rétturinn ekki minni lukku hjá börnunum í kvöld en á árum áður.

Uppskriftin er ofureinföld og um að gera að bæta t.d. beikoni eða lauk í hana og krydda nautahakkið með spennandi kryddum. Eins þykir okkur gott að hafa kartöflumús með réttinum en í kvöld létum við salat nægja.

Markoolios makkarónuskúffa

 • 4 dl makkarónur
 • 500 gr nautahakk
 • 2 egg
 • 5 dl mjólk
 • 2 teningar kjötkraftur
 • rifinn ostur

Hitið ofninn í 180° og smyrjið eldfast mót með smjöri. Sjóðið makkarónurnar þar til þær eru hálfsoðnar. Steikið nautahakk og kryddið með salti og pipar. Blandið nautahakkinu og makkarónunum saman og leggið í eldfasta mótið. Hrærið saman eggjunum og mjólkinni og hellið yfir eldfasta mótið. Sjóðið 2-3 dl af vatni og setjið teningana í. Látið sjóða þar til teningarnir hafa leysts upp og hellið þá vatninu í eldfasta mótið. Blandið öllu vel saman í eldfasta mótinu og stráið síðan ostinum yfir. Setjið réttinn í ofninn og bakið þar til osturinn er kominn með fallegan lit.

Berið réttinn fram með tómatsósu og salati.

Makkarónuskúffan er ekki síðri daginn eftir, að hita hana upp í ofni eða á pönnu og krydda með smá aromati.

Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki

Það er búið að vera nóg að gera á heimilinu í kvöld og enginn tími verið til að sinna blogginu. Ég má þó til með að líta stutt inn og deila með ykkur uppskrift að kvöldmatnum hjá okkur.

Það er langt síðan ég sá þessa uppskrift en hún hefur ekki ratað inn á matseðilinn fyrr en núna. Hún verður þó án efa elduð oftar því þessi ofnbakaða eggjakaka sló í gegn og kláraðist upp til agna. Hún er einföld og fljótleg og hentar því vel í dagsins amstri.

Ofnbökuð eggjakaka með nautahakki (uppskrift frá Tasteline).

Fyllingin

 • 400 gr nautahakk
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 laukur
 • 3 msk vatn
 • 1,5 msk tómatpuré
 • timjan
 • chili explosion krydd frá Santa Maria

Botninn

 • 4 egg
 • 1 dl rjómi
 • 2 msk smjör
 • 1 tsk oregano

Ofanlag

 • 3 dl rifinn ostur
 • 1,5 dl rjómi
 • 3/4 dl sýrður rjómi
 • kokteiltómatar

Hitið ofninn í 200°. Skerið lauk og hvítlauk smátt niður. Steikið nautahakkið ásamt laukunum þar til nautahakkið er full steikt. Saltið og piprið. Bætið vatni á pönnuna ásamt tómatpuré og hökkuðu fersku timjan (eða þurrkuðu ef þið eigið ekki ferskt) og látið sjóða við vægan hita þar til vökvinn hefur að mestu gufað upp.

Hrærið eggin með rjóma og oregano og hellið blöndunni í smurt eldfast mót. Bakið í ofni í ca 8-10 mínútur. Takið úr ofninum og leggið hakkfyllinguna yfir.

Hrærið saman rifnum osti, rjóma og sýrðum rjóma og hellið yfir nautahakkið. Dreifið sneiddum kokteiltómötum yfir. Setjið aftur í ofninn og bakið í ca 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit.

Berið fram heitt með góðu salati (og tómatsósu að mati strákanna).