Gleðilega fyrstu aðventu kæru lesendur. Við kveiktum á fyrsta aðventukertinu snemma í morgun, enda dimmt úti og notalegt að leyfa birtunni frá aðventuljósum njóta sín.
Matseðill vikunnar er barnvænn og góður. Ég mæli sérstaklega með saffransnúðunum með helgarkaffinu. Uppskriftin er stór og ætti því að duga vel fram að jólum. Það er svo huggulegt að eiga þá í frystinum og geta boðið upp á þegar gesti ber að garði, þeir þurfa bara smá stund í örbylgjuofninum og verða þá eins og nýbakaðir.
Að lokum vil ég benda ykkur á að fylgjast með hér á blogginu síðar í dag því ég verð með skemmtilegan leik í tilefni aðventunnar.
Mánudagur: Mér þykir steiktur fiskur í kókoskarrý vera fín byrjun á vikunni.
Þriðjudagur: Lasagna með rjómakremi hefur verið í dálítlu uppáhaldi hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst.
Miðvikudagur: Spaghetti í rjómalagaðari tómatsósu er einfaldur réttur sem kemur verulega á óvart. Krakkarnir eiga eftir að elska hann og foreldrarnir líka.
Fimmtudagur: Kjúklingabitar með sætum kartöflufrönskum og hunangssinnepsósu er annar réttur sem fer vel í börnin. Sjálf gæti ég lifað á sætum kartöflum í hvaða formi sem er.
Föstudagur: Mexíkósk kjúklingasúpa verður oft fyrir valinu á föstudögum hjá okkur. Ég set smá karrý út í súpuna og ber hana fram með svörtu Doritos, sýrðum rjóma og nýrifnum cheddar.
Með helgarkaffinu: Saffransnúðar með marsípani þykja mér ómissandi á aðventunni. Ég fylli frystinn af þeim áður en aðventan gengur í garð og nýt þess að geta hitað þá upp með kaffinu.
Takk fyrir frábært blogg. Vikumatseðillinn er alveg frábær og ég bakaði saffran snúðana í gær. Þeir eru dásamlega góðir.
Svava