Í síðustu viku gerðum við okkur glaðan miðvikudag, eða öllu heldur glatt miðvikudagskvöld. Við gerum það ósjaldan, enda vikan þá rúmlega hálfnuð og því kjörið tilefni til að gera vel við sig. Ég eldaði einfaldan pastarétt, bakaði brauð og opnaði hvítvínsflösku. Þegar ég bar réttinn fram hugsaði ég með mér að þetta væri nú hálf ómerkileg máltíð en átti fljótt eftir að skipta um skoðun. Við gátum ekki hætt að borða því rétturinn var svo góður og daginn eftir börðust strákarnir um það sem eftir var.
Til að gera góða máltíð betri má hafa í huga að það er mjög gott að bera pastaréttinn fram með nýbökuðu brauði og pestó. Það má þá jafnvel hræra smá pestói saman við pastað ef það er stemning fyrir því. Síðan er gott að eiga góðan parmesan til að rífa yfir og alls ekki spara hann. Og þar sem það fer hvítvín í réttinn er upplagt að bera hann fram með köldu hvítvínsglasi til að flaskan sé ekki opnuð til einskis…
Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan (uppskrift fyrir 4-6)
- 1 rauðlaukur
- 3 hvítlauksrif
- 100 g salami (þunnt skorið, notið góða tegund)
- 1 poki furuhnetur
- 1 dl hvítvín
- ólívuolía
- 250 g ostafyllt ferskt ravioli (4 formaggi)
- 150 g pasta
- ruccola eftir smekk (2-3 góð handfylli)
- parmesan (ekki spara hann)
Fínhakkið rauðlauk og hvítlauk og skerið salamisneiðarnar i fernt. Steikið lauk, hvítlauk, salami og furuhnetur í vel af ólívuolíu í 2 mínútur. Bætið hvítvíni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita. Sjóðið pastað. Hellið smá af pastavatninu á pönnuna og bætið síðan soðnu pastanu líka á pönnuna. Blandið öllu vel saman. Setjið pastablönduna í skál og blandið ruccola saman við. Rífið vel af parmesan yfir og berið fram, gjarnan með hvítlauksbrauði.
2 athugasemdir á “Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan”