Ég fór í smá frí til Brussel og Stokkhólms í síðustu viku og skildi tölvuna eftir heima, sem varð til þess að bloggið fékk að sitja á hakanum. Hef ég sagt ykkur að ég E L S K A Stokkhólm? Hún er uppáhalds borgin mín í öllum heiminum og mér þykir alltaf jafn yndislegt að koma þangað. Í þetta sinn var það sérlega ljúft, því bæði lék veðrið við okkur og við fórum á bestu tónleika sem ég hef nokkurn tímann farið á, nefnilega Adele. Ég er enn að hugsa um hvað hún er stórkostleg söngkona og hefði helst viljað elta hana á næstu tónleika.
Ég var búin að lofa uppskrift af þessari böku sem hvarf á methraða ofan í mannskapinn hér heima um daginn. Bananar og súkkulaði er blanda sem getur ekki klikkað. Ég bar bökuna fram heita með vanilluís og sló algjörlega í gegn. Súpergóð!
Banana- og súkkulaðibaka (uppskrift fyrir 4-5)
- 3 bananar
- 100 g suðusúkkulaði
- 2 dl hveiti
- 1 dl sykur
- 1 msk vanillusykur
- 125 g smjör, við stofuhita
Afhýðið bananana og skerið í sneiðar. Grófhakkið súkkulaðið.
Setjið hveiti, sykur, vanillusykur og smjör í skál og vinnið saman með gaffli eða fingrunum þannig að úr verði nokkurs konar mulningur.
Smyrjið eldfast mót, setjið bananana í botninn, súkkulaðið yfir og endið á að dreyfa mulningnum yfir. Bakið við 200° í 25-35 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit. Berið bökuna fram heita með vanilluís eða rjóma.
hæ! ég sá Adele í London, og er sammála.. hún var æði!
takk fyrir gott blogg.. ég kíki við reglulega. x
hæ hæ er alveg heil matskeið af vanillusykri í þessari?