Ég er búin að eiga æðislegar tígrisrækjur í frystinum um nokkurt skeið og ákvað á fimmtudaginn að láta verða af því að elda þær. Það var jú frídagur, sumardagurinn fyrsti, og því upplagt að vera með góðan kvöldmat. Ég endaði á að gera rétt sem er í svo bragðgóðri sósu að ég var farin að hræðast að hún yrði kláruð áður en ég næði að bera réttinn á borð. Það var stöðugt verið að smakka á henni!
Þessi réttur er svo stórkostlega góður að það nær engri átt. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og köldu hvítvíni (fyrir okkur fullorðna fólkið) og það ætlaði enginn að geta hætt að borða. Í eftirrétt var ég með æðislega böku sem ég bar fram heita með ís. Ég hef aldrei séð eftirrétt klárast jafn hratt! Ég mun setja inn uppskriftina af henni fljótlega.
Tígrisrækjur með tælensku ívafi (uppskrift fyrir 4)
- um 1 kg tígrisrækjur
- 2 paprikur (ein gul og ein rauð)
- 100 g sykurbaunir
- lítill púrrulaukur
- 3 hvítlauksrif
- 1 msk rautt karrýpaste
- 1 – 1½ teningur af kjúklingakrafti
- skvetta af sojasósu (smakkið til, mér finnst gott að setja góða skvettu)
- 1-2 tsk mango chutney
- ½ hakkað ferskt rautt chilli
- 1 dós kókosmjólk (400 ml.)
- 1 dós sýrður rjómi (180 g)
- 1 tsk Sambal oelek (chillimauk)
- 1 msk limesafi
Strimlið paprikurnar og púrrulaukinn. Steikið grænmetið á pönnu og bætið síðan öllum hráefnum, fyrir utan rækjurnar, saman við. Látið sjóða saman þar til sósan þykknar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er rækjunum bætt á pönnuna og látið sjóða með í ca 1-2 mínútur.
Rosalega góður risarækjuréttur. Geri hann alltaf. Takk fyrir þessa síðu ég nota hana oft.
Takk Olga fyrir kveðjuna. Gaman að heyra að rétturinn veki lukku og gaman að heyra frá þér 🙂
Hæ, þessi réttur er tjúllaður! Hef gert hann nokkrum sinnum, ýmist með kjúkling eða rækjum en finnst hann betri með kjúkling. Þessa sósu er hægt að borða með skeið svo góð er hún. Takk fyrir mig 🙂
Kv, Kristín.