Ég veit að það er hefð á mörgum heimilum að vera með pizzur á föstudagskvöldum. Sjálf gæti ég eflaust lifað á pizzum og fæ ekki leið á þeim. Mér þykir hins vegar gaman að prófa nýjar uppskriftir og mismunandi áleggstegundir. Hér undir uppskriftaflipanum að ofan má finna nokkrar tegundir af pizzum sem mér þykja góðar og nú bæti ég enn einni í safnið.
Þessi pizza er ólík þeim flestum þar sem botninn er gerður úr sætri kartöflu. Uppáhalds áleggið er síðan sett yfir, rétt eins og um hefðbundinn pizzabotn sé að ræða. Ég breytti þó út af vananum með áleggið í þetta sinn. Mér þykir satay sósa svo góð með kjúklingi og sætum kartöflum þannig að hún fékk að fara yfir botninn ásamt kjúklingi, rauðlauk og vel af osti. Þegar pizzan kom úr ofninum setti ég mangó, ferskt kóriander, kokteiltómata og salthnetur yfir hana. Útkoman var æðisleg!
Sætkartöflu pizzabotn (uppskriftin gefur einn stóran botn) – uppskrift frá Pinch of Yum
- 1 meðalstór sæt kartafla
- ⅔ bolli haframjöl
- 1 egg
- ½ tsk salt
- krydd eftir smekk (má sleppa)
Hitið ofn í 200°. Setjið sætu kartöfluna og haframjölið í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan er orðin fín. Bætið eggi og kryddum (séu þau notuð) saman við og látið vélina taka nokkra snúninga í viðbót til að allt blandist vel. Setjið blönduna á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og mótið pizzabotn sem er 0,5 – 1 cm á þykkt. Bakið í 25-30 mínútur, eða þar til botninn er þurr viðkomu. Takið pizzabotninn úr ofninum, látið hann kólna og setjið hann síðan aftur á bökunarpappírsklædda bökunarplötuna en nú með þurru hliðina (sú sem hafði snúið upp í ofninum) niður. Takið bökunarpappírinn varlega af, penslið yfir botninn með ólífuolíu og bakið í 5-10 mínútur til viðbótar til að fá stökkann botn. Setjið sósu, álegg og ost yfir pizzubotninn og bakið þar til osturinn hefur bráðnað.
Á kartaflan að vera soðin áður en hún fer í matvinnsluvelina?
Nei, það þarf ekki sjóða hana áður 🙂
>